Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - annmarkar á héraðsdómi - ómerking

Úr dómi Hæstaréttar nr. 358/2016:

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákæruvaldsins byggt á því, að teknu tilliti til reikninga og gagna sem ákærði hafði lagt fram í héraði, að fjárhæð ætlaðra vanskila næmi í heild 52.558.812 krónum. Af hálfu ákærða var ekki gerð athugasemd við að sú fjárhæð væri í samræmi við þau gögn sem tekið var tillit til í niðurstöðum héraðsdóms þrátt fyrir þann tölulega mismun sem væri fyrir hendi. Af hálfu ákærða var á því byggt að lækka bæri fjárhæð ætlaðra vanskila mun meira en ákæruvaldið fellst á og þá eftir sem áður á grundvelli hinna ýmsu gagna sem hann hefur lagt fram. Byggir ákærði á því að ætluð vanskil nemi 42.711.058 krónum. Hvað sem líður skýringum sakflytjenda fyrir Hæstarétti hefur engin niðurstaða fengist á því til hvaða gagna héraðsdómur leit þegar lagt var til grundvallar dómi að miða ætluð heildarvanskil ákærða við 52.023.773 krónur. Sú afstaða sakflytjenda að sammælast um það að sú fjárhæð sem ákæruvaldið leggur nú til grundvallar ætluðum vanskilum sé í samræmi við þau gögn sem tekið var tillit til í niðurstöðum héraðsdóms fær því ekki breytt að fyrir hendi er óútskýrður tölulegur munur á þeirri fjárhæð og þeirri tölu sem byggt er á í hinum áfrýjaða dómi og ákærði byggir sem fyrr á því fyrir Hæstarétti að líta beri til allra þeirra sömu gagna og hann gerði undir rekstri málsins í héraði. Það verður hins vegar með engu móti staðreynt á hvaða gögnum héraðsdómur byggði sína tölulegu niðurstöðu. Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, eru svo verulegir annmarkar á samningu hins áfrýjaða dóms, sbr. einkum f. og g. liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann af þeim sökum og vísa málinu heim í hérað til dómsálagningar að nýju.