Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - fjárdráttur - umboðssvik - vanskil VSK

Úr héraðsdómi nr. S-930/2016:

Þær úttektir sem voru utan marka rekstraráætlana hafi ákærða borið að leggja fyrir stjórn. Auk þess hefði verið treyst á heilbrigða skynsemi hans í þessum efnum enda hefðu samtökin ekki haft úr miklu að moða. Töldu þeir allir ljóst vera að kaup á áfengi ótengt risnu eða notkun leigubifreiða hér á landi tengdist ekki starfsemi SMÁÍS. Gera verður þá kröfu til þeirra sem gegna trúnaðarstörfum að þeir sanni, séu brigður bornar á, að þeir hafi haldið sig innan heimilda sinna. Ákærði tók ákvarðanir um ofangreindar úttektir upp á sitt eindæmi þrátt fyrir vitneskju sína um slæma fjárhagslega stöðu SMÁÍS. Dómurinn telur að í þessu ljósi verði að virða heimildir ákærða til úttekta af reikningi SMÁÍS. Þá telur dómurinn sannað með samhljóma framburði vitna og gögnum málsins að ákærði hafði ekki heimild til þess að verja fjármunum SMÁÍS til framangreindra úttekta. Gildir einu þó að um kaup á tækjum eða munum hafi verið að ræða sem nýttust honum í starfi, óformlega fundi þar sem umræðuefnið tengdist starfi hans á einn eða annan hátt eða greiðslur fyrir leigubifreiðar. Brot ákærða voru í öllum tilvikum fullframin. Af því sem rakið hefur verið er sannað að ákærða hafi verið ljóst að með úttektunum, sem ná yfir langt tímabil, hafi hann farið út fyrir heimildir sínar og fjárhagslega getu félagsins. Jafnframt var honum ljóst að hætta væri á að hann myndi valda félaginu verulegri fjártjónshættu og teljast skilyrði 243. gr. um auðgunarásetning uppfyllt. Verður ákærði sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. ð hann myndi valda félaginu verulegri fjártjónshættu og teljast skilyrði 243. gr. um auðgunarásetning uppfyllt. Verður ákærði sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

 

[...]

 

Dómurinn telur að virða verði heimildir ákærða til úttekta af kreditkorti félagsins í ljósi vitneskju hans um afar slæma fjárhagslega stöðu samtakanna og þeirra skyldna sem hvíldu á honum sem framkvæmdastjóra. Var ákærði í aðstöðu sem hann misnotaði gróflega með áframhaldandi úttektum. Vissi stjórn SMÁÍS ekki betur en að þær rúmuðust innan rekstraráætlana og væru í samræmi við ársreikninga sem í reynd voru tilbúningur. Vísast að öðru leyti til fyrri umfjöllunar í niðurstöðukafla vegna I. kafla ákæru. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir voru öll fullframin. Af því sem rakið hefur verið er sannað að ákærða hafi verið ljóst að með úttektunum, sem ná yfir langt tímabil, hafi hann farið út fyrir heimildir sínar og skuldbundið SMÁÍS umfram fjárhagslega getu félagsins. Jafnframt var honum ljóst að hætta væri á að hann myndi valda félaginu verulegri fjártjónshættu og teljast skilyrði 243. gr. um auðgunarásetning uppfyllt. Verður ákærði sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

[...]

 

Ákærða er gefið að sök að hafa ekki fært bókhald félagsins rekstrarárin 2008 til og með ársins 2014. Hér fyrir dómi neitaði ákærði sök og bar  fyrir sig trassaskap í þessum efnum. Byggir hann á því að brot hans geti ekki talist stórfellt fyrir þær sakir einar að hafa skilað bókhaldsgögnum í plastpoka. Samkvæmt 1. gr. laga um bókhald nr. 145/1994 var SMÁÍS bókhaldsskyldur lögaðili. Ákærða bar sem framkvæmdastjóra skylda til að færa bókhald SMÁÍS í samræmi við ákvæði laganna. Vitnin A og E staðfestu að ákærði hefði ekki sinnt þessum skyldum sínum. Eru fyrrgreindar varnir ákærða að engu hafandi. Saknæmisskilyrði samkvæmt 36. gr. laga um bókhald er ásetningur eða stórfellt gáleysi. Skilyrði saknæmis eru uppfyllt. Brot gegn 37. gr. laganna varða fangelsi allt að sex árum samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 37. gr. laganna segir að brot gegn ákvæðinu teljist ætíð meiri háttar brot. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. ákvæðisins telst það meiri háttar brot ef maður færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfyllir ekki kröfu laga í meginatriðum. Telur dómurinn fullsannað að ákærði hafi gerst sekur um ofangreinda háttsemi og er brot ákærða rétt færð til refsiákvæða.

 

[...]

 

Ákærði hefur játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru þessari. Með skýlausri játningu ákærða, sem á sér stoð í rannsóknargögnum málsins, er fram komin lögfull sönnun um sekt hans vegna þeirra brota sem lýst er í ákæru. Brot hans eru þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði lét undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna þeirra uppgjörsára sem tilgreind eru í ákæru. Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og til dómaframkvæmdar kemur því ekki til greina að færa refsingu hans niður í fésektar.