Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - Vangoldinn virðisaukaskattur

Úr héraðsdómi nr. S-313/2017:

Gögn málsins staðfesta að ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskatti í rekstri ákærða að því sem nemur 3.034.712 krónum vegna ársins 2012 og 4.041.252 krónum vegna ársins 2013. Samtala þeirra fjárhæða, 7.075.967 krónur, samsvarar fjárhæð þeirri sem tilgreind er í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem ákærða bar þó að innheimta vegna starfsemi sinnar á árunum 2012 og 2013, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot ákærða því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt ákærði telji sig hafa átt mögulega inneign á móti þeim virðisaukaskatti sem honum bar að greiða, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988. Ákærði var ekki á virðisaukaskattsskrá á því tímabili sem ákæra málsins tekur til og ekki verður talinn til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem keypt eru fyrir skráningardag, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Verður því ekki fallist á það með ákærða að lækka beri fjárhæð í ákæru með tilliti til innskatts á því tímabili sem ákæran tekur til. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. febrúar 2007 dæmdur til átta mánaða fangelsisrefsingar, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 20.800.000 krónur, fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um bókhald og 262. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2008 dæmdur til 14.500.000 króna sektargreiðslu, fyrir brot gegn sömu lögum og einnig með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá  26. september 2013 en þá var hann dæmdur til 10 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar að fjárhæð 14.500.000 krónur. Var þá um hegningarauka við dóm frá 15. október 2008 að ræða, en jafnframt að hluta til rof á skilorði refsidómsins frá 1. febrúar 2007. Var sá skilorðsdómur dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi tíu mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Ákærði gekkst greiðlega við brotum sínum og er til þess litið við ákvörðun refsingar. Á móti kemur að ásetningur ákærða styrkur og einbeittur og er í því sambandi litið til 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá teljast brot ákærða stórfelld í skilningi 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda eru vanskil stefnda við ríkissjóð umtalsverð auk þess sem ákærði hefur þrívegis áður verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. sama refsiákvæðis. Brot ákærða nú eru að stærstum hluta hegningarauki við síðastgreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. september 2013 en að hluta til er um að ræða rof á skilorði refsidómsins. Verður skilorðsdómurinn því dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi, sbr. 60., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða  hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt verður ákærða jafnframt gerð sektarrefsing. Brot gegn ákvæðinu varðar sektum, sem skulu aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Heildarvanskil ákærða nema 7.075.967 krónum. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af réttarframkvæmd á þessu sviði er ekki fært að miða við fésektarlágmark samkvæmt framangreindu lagaákvæði, heldur verður miðað við þrefalda fjárhæð vanskila, þó þannig að frá verður dregin fjárhæð álags sem ákærða var gert að greiða í úrskurði ríkisskattstjóra, 707.597 krónur. Verður ákærði því dæmdur til að greiða 20.520.304 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Með hliðsjón af því að sektarfjárhæð er umfram lögbundið lágmark og jafnframt með hliðsjón afviðmiðunarreglum dómstólaráðs þykir vararefsing hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Garðars Guðmundar Gíslasonar hrl., 316.200.000 krónur, en annan sakarkostnað leiddi ekki af máli þessu.