Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - vanskil VSK

Úr héraðsdómi nr. S-405/2015:

Fyrir liggur í málinu og ekki um það deilt að umræddir reikningar fyrir sölu tækja og efnis voru gefnir út af Byggingarfélaginu Firði ehf. Ákærði hefur borið fyrir dómi að hafa verið stjórnarmaður og daglegur stjórnandi þess félags og haft með fjármálastjórn félagsins að gera og gefið fyrirmæli um útgáfu reikninganna. Einnig hafi skattskil félagsins verið í hans höndum, þar á meðal gerð virðisaukaskattsskýrslna. Er því fallist á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi verið daglegur stjórnandi og farið með stjórn félagsins skv. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá hefur ákærði fyrir dómi þekkst þær fjárhæðir sem um ræðir í þessu máli sem réttar. Ákærði taldi að skýrslum sem ekki var skilað hefði verið skilað og kvaðst ekki átta sig á því hvers vegna öðrum skýrslum hefði ekki verið skilað á réttum tíma. Þá hafi ástæðan fyrir því að virðisaukaskattur hafi ekki verið greiddur verið vegna ytri aðstæðna. Ákærði vissi því eða mátti vita að skýrslum og greiðslum var ekki skilað. Verða saknæmisskilyrði 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga um ásetning og stórfellt gáleysi, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 ásamt síðari breytingum, talin uppfyllt samkvæmt framangreindu.  Refsinæmi brota gegn framangreindum lagaákvæðum er ekki háð því að endurálagning hafi farið fram hjá ríkisskattstjóra. Fyrir liggur í málinu að ríkisskattstjóri muni ekki leggja þessar fjárhæðir á Byggingarfélagið Fjörð ehf., enda sé félagið þrotabú, kröfulýsingarfresti hafi lokið þann 19. júní 2013 og því engin efni til endurálagningar, sbr. 6. mgr. 103. gr. og 96. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Á það er fallist með ákæruvaldinu að brot ákærða hafi verið fullframið í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt þegar skýrslum var ekki skilað á réttum tíma og/eða greiðsla var ekki innt af hendi á réttum tíma. Sú fjárhæð sem um getur í ákæru er meiri háttar og eru brot ákærða því réttilega heimfærð undir 1. mgr. 262. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998 eins og í ákæru greinir.

 

 

Ákærði er fæddur [...] árið 1962. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum aldrei verið gerð refsing áður, sem ber að virða honum til málsbóta. Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi sem verður með vísan til sakaferils ákærða bundin skilorði eins og í dómsorði segir. Ákærði verður samhliða skilorðsbundinni refsingu dæmdur til greiðslu sektar skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum. Þykir rétt að miða sekt við lögbundið lágmark, eða tvöfalda skattfjárhæð af þeirri fjárhæð sem vangreidd var, eða samtals 82.000.000 króna. Um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir