Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - vanskil VSK

Úr Hæstaréttardómi nr. 394/2016:

Eins og áður greinir var ákærði eini stjórnarmaður og eigandi Byggingafélagsins Fjarðar ehf. Þá hefur ákærði fyrir dómi gengist við því að hafa annast daglega starfsemi félagsins, þar með talið reikningsgerð og uppgjör á virðisaukaskatti. Að þessu gættu hvíldi sú skylda á honum að skila virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á þeim skatti, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki var skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins á tímabilunum september til október og nóvember til desember 2011 og september til október 2012. Virðisaukaskattskýrslum vegna tímabilanna janúar til febrúar, mars til apríl, maí til júní og júlí til ágúst 2012 var hins vegar skilað 23. október það ár, en frestur til að skila skýrslum er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá liggur fyrir að ekki var staðið skil á skattinum, en samtals nam hann á þessu tímabili 41.588.475 krónum vegna fyrrgreindra reikninga á hendur Benedikt Sveinssyni ehf. Að teknu tilliti til innskatts að fjárhæð 100.359 krónur bar að standa skil á mismuninum að fjárhæð 41.488.116 krónur, eins og miðað var við í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem bar að innheimta í starfsemi félagsins, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt ákærði telji félagið hafa átt inneign við uppgjör virðisaukaskatts á öðru tímabili, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, vegna reiknings á hendur því 30. desember 2008. Leiðir þetta þegar af þeirri ástæðu að félagið var ekki á virðisaukaskattskrá fyrr en 1. mars 2010, en ekki verður talinn til innskatts virðisaukaskattur af aðföngum sem keypt eru fyrir skráningardag, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Þá verður ekki fallist á það með ákærða að rannsókn málsins sé áfátt með tilliti til frekari innskatts á því tímabili sem ákæran tekur til, en ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins haft alla möguleika á að leggja fram og vísa til gagna varðandi rekstur félagsins. Í þeim efnum ber að hafa í huga skyldur hans samkvæmt viðeigandi lögum til að skila skýrslum, byggðum á réttum reikningum og gögnum. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í eitt ár, en fullnusta hennar verður bundin skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir. Einnig ber að dæma ákærða til greiðslu fésektar sem verður ákveðin 83.000.000 krónur að teknu tilliti til lögbundins lágmarks hennar í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Um vararefsingu fer eins og í dómsorði segir.