Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - vanskil VSK

Úr héraðsdómi nr. S-75/2017:

Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru sem byggð er á rannsókn lögreglu sem fram fór eftir að skattrannsóknarstjóri ríkisins vísaði málinu þangað með bréfi 2. febrúar 2017. Málið varðar vanskil á virðisaukaskattskýrslum og einnig vanskil á virðisaukaskatti vegna einkahlutafélagsins [...] ehf. Með játningu ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins, hafa viðhlítandi sönnur verið færðar fram fyrir sök ákærða samkvæmt ákæru. Ákærði er því sekur um að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður [...] ehf. látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskattskýrslum á lögmæltum tíma vegna hluta þeirra tímabila sem tilgreind eru í ákæruskjali héraðssaksóknara og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 18.940.552 krónur. Verða brot hans í ljósi þeirrar fjárhæðar að teljast meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot hans jafnframt rétt heimfærð í ákæru til refsiákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Bú  [...] ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 28. janúar 2016. Skiptum á búinu lauk 26. maí 2016 og var félagið afskráð 31. maí sama ár.  Ákærði, sem fæddur er [...], hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði hefur játað brot sín hreinskilningslega. Þykir refsing hans, með hliðsjón af framanrituðu, hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og fellur hún niður að tveimur árum liðnum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Ákærði verður enn fremur, samkvæmt heimild í 2. málslið 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, dæmdur til greiðslu fésektar í ríkissjóð. Í 1. málslið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um lágmark fésektar í tilvikum eins og hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem dregin var undan og vanrækt var að greiða. Með 3. gr. laga nr. 134/2005 var nýjum málsliðum bætt við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 sem er efnislega á þá leið að fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á virðisaukaskatti samkvæmt skýrslu þar um, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Gengið hafa nokkrir dómar í Hæstarétti Íslands þar sem framangreind ákvæði hafa verið skýrð og er í dómi þessum tekið mið af þeim, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 71/2010, 77/2010 og 413/2011. Í málsgögnum eru tilgreindar innborganir inn á skattskuld þess félags sem um ræðir. Eru fjárhæðir slíkra innborgana óumdeildar. Bárust greiðslur inn á alls níu tímabil sem teljast greidd að verulegu leyti, það er meira en 1/3 hluti, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 428/2005, en þar sem skýrslu var ekki skilað á lögmæltum tíma vegna þriggja tímabila er skilyrði fyrrnefndra laga sem breyttu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að lækka sektarrefsingu niður úr fésektarlágmarki ákvæðisins ekki fyrir hendi hvað þau tímabil varðar, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 77/2010. Um er að ræða tímabilin mars-apríl til og með júlí-ágúst rekstrarárið 2011. Hvað hin sex tímabilin varðar, það er janúar-febrúar, september-október, nóvember-desember rekstrarárið 2011, mars-apríl rekstrarárið 2012, nóvember-desember 2013 og september-október 2014 er fullnægt skilyrðum til að lækka sektarrefsingu niður úr fésektarlágmarki. Samkvæmt þessu verður sektarrefsing ákærða ákveðin með hliðsjón af áðurgreindu refsilágmarki og að teknu tilliti til innborgana inn á skattskuld félagsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða 29.824.494 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja. Um vararefsingu fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði. 

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi fimm mánuði en fullnustu þeirrar refsingar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 29.824.494 krónur í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja skal ákærði sæta fangelsi í átta mánuði.