Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Refsimál - vanskil VSK – bókhaldsbrot

Úr héraðsdómi nr. S-634/2014:

 

Í máli þessu eru ákærða og hinum ákærðu félögum gefin að sök meiriháttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald. Eru brot ákærða Rafns talin varða við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að því leyti sem brot voru framin í rekstri hinna ákærðu félaga, sem ákærði var fyrirsvarsmaður fyrir. Að öðru leyti eru brot hans talin varða við 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940, og 1. tl., 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Brot hinna ákærðu félaga eru talin varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 40. gr. laga nr. 145/1994. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er mælt fyrir um að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein á ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur verið miklar. Sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga tók ákærði ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskattskýrslum fyrir hvert og eitt uppgjörstímabil rekstrarársins 2011, heldur ákvað að skila einungis leiðréttingarskýrslum þegar bókhald ársins hafði verið fært. Var það ekki fyrr en á miðju ári 2012. Með því braut ákærði gegn umræddri 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, en samkvæmt 24. gr. laganna er hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir og skulu skráningarskyldir aðilar eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða þann virðisaukaskatt sem þeim bar að standa skil á. Með sama hætti brutu hin ákærðu félög gegn 8. mgr. 40. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 40. gr. Þá stóð ákærði ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti fyrir hluta ársins 2011, sem innheimtur var af rekstri hinna ákærðu félaga. Að því er félagið Atvinnubifreiðir og tæki ehf. varðar á það við um tímabilið nóvember – desember 2011 og nemur fjárhæðin eftir leiðréttingu 1.014.413 krónum. Með sama hætti og fyrir sama tímabil stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var fyrir Íslandsleiðir ehf., samtals að fjárhæð 699.684 krónur. Eins stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Tinnubergs ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, júlí – ágúst og september – október 2011, samtals að fjárhæð 6.157.390 krónur. Að lokum stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Húsaborgar ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, september – október og nóvember – desember 2011, samtals að fjárhæð 2.276.226 krónur. Brot þessi voru fullframin með því að lögboðnar greiðslur voru ekki inntar af hendi á eindaga. Ákærði, sem er skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga, bar ábyrgð á því að félögin stæðu skil á skýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda. Um er að ræða fjögur einkahlutafélög og nema skattundanskot alls ríflega 10.100.000 krónum. Er um meiriháttar brot í skilningi 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 að ræða.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 145/1994 skal í bókhaldi skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Önnur atvik skulu skráð svo fljótt sem unnt er eftir að þau eiga sér stað. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 37. gr. laganna telst meiriháttar brot gegn lögunum ef bókhaldsskyldur maður eða fyrirsvarsmaður lögaðila færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfur laga í meginatriðum. Samkvæmt 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 skal sömu refsingu sæta og samkvæmt 1. mgr. sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 37. og 38. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994. Ákærði hefur lýst því að bókari hafi aðstoðað hann við færslu bókhalds fyrir hin ákærðu félög. Ákærði hafi greitt og gefið út reikninga og sett þessi fylgiskjöl í möppu. Eftir árið hafi ákærði látið bókara fá þessi gögn, sem í framhaldi hafi fært bókhaldið, og á sama tíma hafi bókari unnið ársreikninga og gert skattaskýrslur fyrir félögin. Miðað við framburð ákærða og bókara hinna ákærðu félaga var það ekki fyrr en í júní 2012 sem bókari tók til við að færa eiginlegt bókhald ársins 2011, en röðun fylgiskjala í möppur telst eitt og sér ekki færsla á bókhaldi í skilningi laga nr. 145/1994. Með þessari háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Að því er hin ákærðu félög varðar á þessi háttsemi undir 40. gr. sömu laga. Samkvæmt öllu ofanrituðu verða ákærðu sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.  

 

[...]

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Rafn Sveinsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Ákærði Rafn greiði 18.262.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 mánuði. Atvinnubifreiðar og tæki ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.825.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Íslandsleiðir ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.258.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Húsaborg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 4.097.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Tinnuberg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 11.082.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Ákærðu greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.395.000 krónur.