Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Rekstrarkostnaður - málamyndagerningur

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 74/2017:

Samkvæmt því sem að framan segir um forsendur ríkisskattstjóra verður að telja að hinar umdeildu ákvarðanir hans séu á því byggðar að eigandi kæranda hafi í raun verið kaupandi fasteignarinnar B og að tilgreining kæranda sem kaupanda í kaupsamningi um eignina hefði aðeins verið til málamynda. Til stuðnings þessari ályktun sinni hefur ríkisskattstjóri hins vegar ekki tilfært nein önnur atriði en sem lúta almennt að álitaefnum um réttmæti þess að fara með eignina sem fyrnanlega eign í skattskilum kæranda, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, og hvort rekstrarkostnaður vegna eignarinnar geti talist frádráttarbær hjá félaginu samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. þeirra laga. Þannig hefur ríkisskattstjóri hvorki dregið atvik í tengslum við gerð kaupsamnings um fasteignina né varðandi efndir hans fram í sviðsljósið því til stuðnings að fasteigninni hafi í skiptum kæranda og eiganda félagsins verið ætlað að vera í eigu hins síðarnefnda. Ekki hefur ríkisskattstjóri heldur fært neitt fram í sambandi við meðferð fasteignarinnar í skattskilum félagsins eða eiganda þess þessu til styrktar. Gögn málsins þykja ekki heldur bera með sér að tortryggilegt sé um þessi atriði út af fyrir sig, hvað sem líður þeim þætti máls sem snertir notkun eignarinnar. Að því athuguðu sem að framan er rakið, sbr. og viðhorf í dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. apríl 2005 í máli nr. 441/2004, þykir bera að hnekkja breytingum ríkisskattstjóra um að fella fasteignina B úr skattskilum kæranda með þeim hætti sem ríkisskattstjóri hefur gert. Verða skattframtöl kæranda árin 2011, 2012, 2013 og 2014 færð í fyrra horf hvað þetta snertir, enda engar kröfur komið fram um annað.

 

[...]

 

Samkvæmt framansögðu er ljóst og óumdeilt að umrædd fasteign var eingöngu notað til íbúðar fyrir eiganda kæranda og fjölskyldu hans. Að því athuguðu og að virtri starfsemi kæranda verður ekki talið að húsnæðið geti talist fyrnanleg eign í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003 og kostnaður við rekstur eignarinnar teljist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. sömu laga, sbr. ennfremur ákvæði a-liðar 6. gr. og 1. málsl. a-liðar 11. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, en í þessum ákvæðum er fjallað um ófrádráttarbærni kostnaðar og fyrninga við slíkar aðstæður. Má í þessu sambandi vísa til úrskurðaframkvæmdar í hliðstæðum málum, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 138/1998 og 41/2004, sem birtir eru á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), og dóma Hæstaréttar Íslands frá 9. september 2005 í málinu nr. 344/2005 og frá 22. nóvember 2007 í málinu nr. 44/2007 þar sem fjallað er um sambærileg atvik. Þykir engu breyta um þetta þótt greidd hafi verið húsaleiga vegna íbúðarafnotanna, enda verður ekki talið að þær leigugreiðslur hafi þýðingu við úrlausn málsins eins og atvikum er háttað með tilliti til notkunar húsnæðisins. Með vísan til framanritaðs verður niðurfelling ríkisskattstjóra á almennri fyrningu B að fjárhæð 790.708 kr. hvert rekstraráranna 2011, 2012 og 2013 látin standa óhögguð. Sama gildir um niðurfellingu gjaldfærðs rekstrarkostnaðar eignarinnar að fjárhæð 1.335.579 kr. rekstrarárið 2011, 335.961 kr. rekstrarárið 2012 og 362.826 kr. rekstrarárið 2013. Ekki þykir heldur ástæða til að hagga við breytingu ríkisskattstjóra hvað varðar húsaleigutekjur kæranda, en umfjöllun í kæru um þann lið verður ekki skilin sem sérstök krafa um að þeirri ákvörðun verði hnekkt burtséð frá niðurstöðu málsins að öðru leyti.