Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Rekstrarkostnaður - veðmál

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 70/2016:

Með fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 1. apríl 2014, var kærandi m.a. krafinn um upplýsingar og gögn um stofnun aðgangs á vefsíðunni Betfair, þ.e. gögn er sýndu fram á hver hefði stofnað og átt umræddan aðgang á vefsíðunni. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. júní 2014, kom fram að gögn um þetta hefðu ekki fundist, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði eigandi kæranda stofnað aðganginn. Væri hægt að kalla eftir gögnum um þetta frá rekstraraðila vefsíðunnar væri þess óskað, en kærandi teldi þetta atriði hins vegar hafa litla þýðingu þar sem viðskiptum þessum mætti jafna við viðskiptamannareikning hjá verðbréfamiðlara sem annaðist fjárfestingar fyrir þriðja aðila í eigin nafni. Á síðari stigum málsins byggði ríkisskattstjóri á því að umrædd viðskipti á vefsíðunni Betfair hefðu verið á vegum eiganda kæranda, enda aðgangur að síðunni stofnaður í hans nafni. Þrátt fyrir þetta tilefni hafa af hálfu kæranda engin gögn verið lögð fram sem styðja það að kærandi hafi átt aðild að þeim veðmálum sem um ræðir í málinu. Liggur samkvæmt þessu ekki annað fyrir í málinu en að þau hafi verið gerð í nafni eiganda og fyrirsvarsmanns félagsins, B, svo sem ríkisskattstjóri hefur talið.

Við athugun á hreyfingalistum bókhalds kæranda rekstrarárin 2010, 2011 og 2012, sem fyrir liggja í málinu, kemur í ljós að fyrri tvö árin eru færðar allmargar greiðslur af bankareikningum félagsins inn á viðskiptakort eiganda kæranda hjá félaginu, nánast alltaf í þúsundum króna, samtals 137.818.200 kr. á árinu 2010 og 48.649.697 kr. á árinu 2011 að teknu tilliti til útskriftagjalds og annars kostnaðar. Í bókhaldi ársins 2010 er heildarfjárhæð innborgana á viðskiptakortið það ár færð út með einni færslu, sem dagsett er 31. desember 2010, og sú fjárhæð annars vegar gjaldfærð sem tap af þátttöku í Betfair á árinu 2010 með 103.619.612 kr. og hins vegar færð sem greiðsla til eiganda kæranda með færslu í viðskiptareikning hans í bókhaldinu með 18.765.172 kr. með skýringartextanum „Tap af Betfair“ svo og sem sérstakur eignaliður að fjárhæð 15.433.416 kr. með skýringunni „Erl. gj.eyrir hjá Betfair, EUR 100.628,65“. Í bókhaldi ársins 2011 er síðastnefndur eignaliður færður út meðal lokafærslna 31. desember 2011 með textanum „Tap af þátttöku í Betfair“. Með annarri færslu sama dag eru með sama skýringartexta færðar 51.514.092 kr. til gjalda vegna þátttöku í veðmálastarfseminni en mótfærsla er á fyrrgreindan reikning vegna viðskiptakorts. Í bókhaldi ársins 2012 kemur viðskiptakort ekki við sögu í bókhaldsfærslum vegna veðmála á vegum Betfair, heldur er gjaldfærð fjárhæð 81.816.000 kr. sem „Tap af þátttöku í Betfair“ færð með einni færslu, dags. 31. desember 2012, af bankareikningi kæranda. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að gerð hafi verið grein fyrir tekjum og gjöldum af meintum viðskiptum við Betfair með neinum viðhlítandi hætti í bókhaldi kæranda, sbr. m.a. ákvæði 9. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, enda niðurstöðutölur eingöngu færðar í árslok og þá að því er virðist aðallega á grundvelli framlagðs fjár til veðmála. Verður að telja að þessi tilhögun á bókhaldsfærslum styðji þá ályktun ríkisskattstjóra að veðmál þessi hafi í raun ekki farið fram á vegum kæranda. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að félagið hafi verið aðili að hinni umþrættu veðmálastarfsemi á árunum 2010, 2011 og 2012 þannig að frádráttur taps af veðmálum þessum geti komið til álita í skattskilum félagsins umrædd rekstrarár, hvorki sem frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 né á öðrum grundvelli. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda. Er þá ekki tekin afstaða til frádráttarbærni taps af slíkum viðskiptum eða meðferð slíks taps í skattskilum að öðru leyti.