Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Úrskurður ríkisskattstjóra - gjalddagi kröfu

Reifun umboðsmanns:

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun tollstjóra um að synja honum um niðurfellingu dráttarvaxta vegna kröfu um endurákvörðun opinberra gjalda sem tollstjóri hafði til innheimtu. A hafði greitt kröfuna 31. janúar 2014 en að mati stjórnvalda var gjalddagi 28. desember 2013 og eindagi 28. janúar 2014. A var því krafinn um dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags.

 

Í 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að séu skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu falli þeir í gjalddaga „10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina“. Í lögunum er gert ráð fyrir því að eindagi sé mánuði eftir gjalddaga. Úrskurður ríkisskattstjóra, þar sem opinber gjöld A voru endurákvörðuð, var dagsettur og póstlagður 18. desember 2013. Afstaða stjórnvalda til gjalddaga og eindaga kröfunnar byggðist á því A hefði verið „tilkynnt um hækkunina“ þann dag. Umboðsmaður tók til athugunar hvort þessi afstaða stjórnvalda hefði verið í samræmi við lög.

 

Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins, öðrum ákvæðum laganna um fresti og hinni almennu reglu 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 taldi umboðsmaður að gjaldanda hefði verið „tilkynnt um“ hækkun þegar úrskurður þess efnis væri kominn til hans á þann stað sem almennt mætti búast við að hann gæti kynnt sér úrskurðinn. Umboðsmaður tók fram að úrskurður í máli A hefði verið borinn út með ábyrgðarpósti. Þar sem A hefði ekki verið heima hefði tilkynning verið skilin eftir á heimili hans 19. desember 2013 um að ábyrgðarbréf biði hans á næsta pósthúsi sem nálgast mætti næsta virka dag. Umboðsmaður taldi að þar sem tilkynningin veitti ekki upplýsingar um efni úrskurðarins hefði hún ekki getað komið í stað birtingar hans. Með vísan til þessa var það álit umboðsmanns að úrskurðurinn hefði í fyrsta lagi verið kominn til A þegar sem hann átti möguleika á að nálgast hann, þ.e. 20. desember 2013, og þá með því að sækja hann á pósthús. Gjalddagi hefði verið 30. desember 2013. Því hefði úrskurður ráðuneytisins ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti.

 

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að mál A yrði endurupptekið og leyst úr því í samræmi við þau sjónarmið sem reifuð voru í álitinu, kæmi fram ósk frá A þess efnis. Jafnframt beindi hann því til stjórnvalda að hafa þessi sjónarmið í huga í framtíðarstörfum sínum. Umboðsmaður taldi hins vegar, í ljós tilmæla um endurupptöku málsins, ekki tilefni til að fjalla frekar um útreikning dráttarvaxta í tilviki A. Einnig tók umboðsmaður fram að hann teldi breytingar ríkisskattstjóra á leiðbeiningartexta í úrskurðum, á þá leið að nú væri upplýst hvenær krafa félli í gjalddaga og frá hvaða degi krafist væri dráttarvaxta, væru í góðu samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Hins vegar beindi hann þeim tilmælum til ríkisskattstjóra að efni umræddra leiðbeininga yrði endurskoðað með hliðsjón af því sem fram kæmi í álitinu.