Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Samruni félaga - skaðabætur

Úr Hæstaréttardómi nr. 248/2016:

Áfrýjandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að stefndi hafi veitt sérfræðiráðgjöf við val á þeirri aðferð sem viðhöfð var við sameiningu 33 ehf. og áfrýjanda auk þess að hafa fært fjármagnskostnað af skuldum fyrrnefnda félagsins ranglega til frádráttar tekjum áfrýjanda í skattskilum hans. Stefndi neitar því að hafa veitt ráðgjöf við val á aðferð við samruna félaganna heldur hafi hann ekki komið að málinu fyrr en eftir að ákvörðun um valið hafði verið tekin af kaupendum hlutafjárins og Íslandsbanka hf. sem lánveitanda þeirra. Þessi fullyrðing stefnda fær stoð í vitnisburði lögmanns 33 ehf. fyrir dómi sem kvaðst sjálfur hafa haft milligöngu um aðkomu stefnda að málinu en þá hafi verið búið að ákveða hvaða leið yrði farin varðandi sameiningu félaganna. Hvorki skrifleg gögn né framburður annarra fyrir héraðsdómi hnekkja þessari staðhæfingu stefnda. Verður hún lögð til grundvallar þar sem áfrýjandi hefur ekki fært sönnur á annað. Samkvæmt því verður skaðabótaábyrgð stefnda ekki reist á þeirri málsástæðu að hann hafi lagt á ráðin um þá aðferð sem valin var við samruna félaganna. Ágreiningslaust er í málinu að eftir samruna félaganna endurskoðaði stefndi ársreikninga áfrýjanda og gerði skattframtöl vegna þeirra ára sem atvik máls þessa taka til. Skattframtölin voru reist á ársreikningum og samkvæmt þeim var umræddur fjármagnskostnaður af lánum þeim sem áfrýjandi tók yfir við samrunann við 33 ehf. gjaldfærður á móti tekjum hans. Ekki er um það deilt að ríkar skyldur hvíla á endurskoðendum í störfum þeirra og ber þeim ávallt að ástunda rétt og vönduð vinnubrögð. Þannig hvíldi sú skylda á stefnda sem endurskoðanda áfrýjanda að rækja þann starfa í samræmi við lög og reikningsskilavenjur sem um slíka sérfræðiþjónustu gilda. Enda þótt gerð ársreikninga hafi verið á ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, getur stefndi ekki borið fyrir sig að hann hafi enga ábyrgð borið á því hvernig skattskilum áfrýjanda var hagað á grundvelli þeirra en samkvæmt svokölluðum ráðningarbréfum milli aðila var hlutverk stefnda að annast endurskoðun og láta í ljós álit á ársreikningi með áritun á hann. Kom þar enn fremur fram að markmið endurskoðunarinnar væri að komast að raun um hvort ársreikningur áfrýjanda gæfi glögga mynd af afkomu hans og efnahag og hvort hann væri í samræmi við lög og reglur.

 

Áfrýjandi kveður stefnda bera skaðabótaábyrgð á tjóni sínu þar sem hann hafi sem sérfræðingur mátt vita að framangreind reikningsskil áfrýjanda væru í andstöðu við ákvæði laga og afdráttarlausa dómaframkvæmd. Þá hafi stefnda borið að upplýsa áfrýjanda um að þau reikningsskil væru ólögmæt. Eftir uppkvaðningu fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 555/2012 hefur legið fyrir að sú aðferð sem áfrýjandi viðhafði við skattskil sín, að draga umræddan fjármagnskostnað frá tekjum sínum, er andstæð ákvæðum laga nr. 90/2003. Á hinn bóginn er ljóst að sú aðferð sem þar var viðhöfð var tíðkanleg þegar þau atvik urðu sem áfrýjandi reisir bótakröfu sína á og hafði verið beitt um langt skeið í skattskilum fyrirtækja. Þá verður ekki annað séð en að þessi aðferð hafi viðgengist átölulaust af hálfu ríkisskattstjóra en hann hreyfði ekki athugasemdum við þessari framkvæmd áfrýjanda fyrr en með fyrirspurnarbréfinu í mars 2012. Jafnframt er til þess að líta að ríkisskattstjóri tók þá ákvörðun í september sama ár að aðhafast ekki frekar í málinu meðan sambærileg mál væru rekin fyrir dómstólum sem rennir stoðum undir að óvissa hafi verið um lögmæti þeirrar aðferðar sem beitt var. Að þessu virtu eru ekki næg efni til þess að meta það stefnda til sakar að hann hafi látið óátalið að þessari aðferð hafi verið beitt í skattskilum áfrýjanda. Að framangreindu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.