Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Samsköttun sambúðaraðila - fjárnám

Úr dómi Hæstaréttar nr. 426/2017:

Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem málið varðar, áttu karl og kona í óvígðri sambúð rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum væru, ef þau óskuðu bæði eftir því skriflega við skattyfirvöld. Eftir gögnum málsins skiluðu sóknaraðili og þáverandi sambúðarmaður hennar saman rafrænum skattframtölum 2007 og 2008 og var bæði skiptin merkt sérstaklega inn á viðeigandi reit í framtölum hvors þeirra að óskað væri eftir samsköttun. Í 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að skattframtal skuli undirritað af þeim, sem framtalsskylda hvílir á, en eftir 4. mgr. sömu lagagreinar jafngilda skil á framtali í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra slíkri undirritun þess. Til þess má einnig líta að samkvæmt framlögðu bréfi ríkisskattstjóra 2. mars 2017 var framtölum sóknaraðila og þáverandi sambúðarmanns hennar árin 2007 og 2008 skilað með notkun á veflykli hennar á þjónustusíðu ríkisskattstjóra. Í þessu tilliti gat engu breytt þótt veflykill sambúðarmannsins hafi ekki jafnframt verið notaður. Þessi samsköttun gat heldur ekki hafa farið fram hjá sóknaraðila, enda var tiltekið í álagningarseðlum hennar 2007 og 2008 að skuldajafnað hafi verið frá maka inneign á staðgreiðslu opinberra gjalda. Að þessu öllu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

 

 

Úr ofangreindum úrskurði héraðsdóms:

Þá er heldur ekki unnt að fallast á sjónarmið sóknaraðila um fyrningu. Tekur dómurinn fram að ekki sé unnt að líta svo á að almennur fjögurra ára fyrningarfrestur kröfuréttinda, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, takmarki heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 til að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Hafa fjölmargir dómar gengið í Hæstarétti þar sem reynt hefur á þann tíma sem ríkisskattstjóri hefur til að endurákvarða skatta og gjöld. Ríkisskattstjóri endurákvarðaði til hækkunar þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrrum sambýlismanns sóknaraðila vegna álagningaráranna 2007-2008 með úrskurði 11. júní 2014. Krafan stofnaðist því á hendur sóknaraðila og fyrrverandi sambúðaraðila hennar þann dag og féll hún í gjalddaga 10 dögum síðar, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003 einnig gagnvart sóknaraðila. Innheimta gagnvart sóknaraðila hófst 16. september 2015 með sendingu greiðsluáskorunar. Er krafan því ekki fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, heldur gild skattkrafa gagnvart sóknaraðila. Þá verður ekki talið að við meðferð ríkisskattstjóra á máli fyrrum sambúðaraðila sóknaraðila hafi reglur stjórnsýslulaga verið brotnar gagnvart sóknaraðila enda verður að telja ljóst að endurálagning gagnvart honum sem sjálfstæðum skattaðila fól ekki í sér gjaldabreytingu gagnvart sóknaraðila og sóknaraðili var ekki aðili þess stjórnsýslumáls. Breytir regla 1 mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 ekki þeirri niðurstöðu.