Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Sérfræðiábyrgð endurskoðanda

Úr héraðsdómi nr. E-873/2016: 

Stefndi [x] skilaði svo inn röngu skattframtali fyrir stefnanda vegna tekjuársins 2005, með því að gera ekki grein fyrir söluhagnaði og rekstrarhagnaði vegna reksturs fasteignarinnar. Var skattframtalinu skilað án þess að það væri borið undir stefnanda og án þess að stefnanda væri gerð grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft að skila efnislega röngu framtali. Á þeim tíma var stefndi Fjárstoð ehf. vinnuveitandi stefnda [x]. Stefndi [x] veitti stefnanda umrædda ráðgjöf og þjónustu við eftirfarandi skattskil sem löggiltur endurskoðandi og er því hafnað að hann hafi farið út fyrir stöðuumboð sitt. Einnig er því hafnað sem haldið hefur verið fram um að stefnandi geti ekki sótt bætur til vinnuveitanda þar sem stefndi [x] hafi verið tryggður starfsábyrgðartryggingu. Því er enn fremur hafnað að ekki hafi verið viðskiptasamband milli stefnda [x] og stefnanda eða að stefndi  [x] hafi unnið fyrir stefnanda í einkaerindum, en ekkert í málinu styður það. Stefndu geta ekki firrt sig ábyrgð með því að stefnandi beri ábyrgð á eigin skattskilum og félaga sinna. Eins og áður segir var skattframtalið ekki borið undir stefnanda áður en því var skilað til skattyfirvalda og stefnandi hafði leitað til stefnda [x] sem sérfræðings og treysti því að ráðgjöf hans og skattskil væru í samræmi við lög. Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á að stefnandi hafi verið þaulvanur fjárfestir og að ekki hafi verið aðstöðumunur á aðilum. Með vísan til alls framangreinds verða stefndu Deloitte ehf., Fjárstoð ehf. og [x] dæmdir óskipt til að greiða stefnanda skaðabætur vegna tjóns sem leiddi af störfum stefnda [x]. Tjón stefnanda felst í því að skattyfirvöld ákváðu tekjuviðbót hjá stefnanda vegna tekjuársins 2005 og bættu við hækkunina 25% álagi.