Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Skattaleg heimilisfesti

Úr Hæstaréttardómi nr. 319/2016:

Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi meðal annars á því að komið sé fram að skattstjóri hafi talið hann skattskyldan hér á landi fram til ársins 2002 og hann því til samræmis skilað skattframtölum, en eftir það hafi hann ekki verið talinn á skattskrá hér fyrr en eftir að hann lét af starfi erlendis. Um þessa málsástæðu, sem áfrýjandi mun fyrst hafa borið upp við munnlegan flutning málsins í héraði og var í hinum áfrýjaða dómi talin of seint fram komin, verður að gæta að því að eðli máls samkvæmt hljóta skattyfirvöld fyrst í stað að miða framtalsskyldu einstaklinga samkvæmt 90. gr. laga nr. 90/2003 og skattskyldu þeirra hér á landi við það hvort þeir eigi hér skráð lögheimili eða fyrir liggi aðrar upplýsingar, sem máli geta skipt eftir ákvæðum I. kafla laganna við ákvörðun um þær skyldur. Þótt einstaklingur, sem tilkynnt hefur um flutning á lögheimili sínu frá landinu, hafi á þeim grunni ekki verið talinn framtalsskyldur hér í byrjun getur sú afstaða ekki girt fyrir að stefndi ríkisskattstjóri taki hana síðar til endurskoðunar eftir 2. mgr. 1. gr. sömu laga. Getur þessi málsástæða því engu breytt um niðurstöðu málsins. Í röksemdum fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er meðal annars vísað til ákvæða 2. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003. Þar er að finna sérreglu um skattskyldu manns þegar svo er ástatt að hann hafi verið heimilisfastur á Íslandi en flutt úr landi og fellt niður heimilisfesti hér. Er maður þá frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag skattskyldur hér á landi í þrjú ár nema hann sanni að hann hafi á því tímabili verið skattskyldur í öðru ríki á sama hátt og menn, sem þar eru heimilisfastir, og hafi fullnægt þeirri skyldu. Ákvæði þetta getur ekki átt við í málinu nema litið yrði svo á að áfrýjandi hafi í raun fellt niður heimilisfesti hér á landi á fyrrgreindu tímabili frá 2003 til 2011. Það breytir því á hinn bóginn ekki að í samræmi við grunnreglu, sem býr að baki þessu ákvæði, verður að leggja á áfrýjanda sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi á tímabilinu verið skattskyldur í Máritaníu og fullnægt þeirri skyldu. Fyrir þessu hefur áfrýjandi engar sönnur fært. Með framangreindum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti.