Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Skattfrádráttur vegna nýsköpunarverkefnis - samstarfsverkefni

Nánar um úrskurð yfirskattanefndar:

 

Málið laut m.a. að túlkun 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009, eins og það ákvæði hljóðaði á árinu 2017. Þá hljóðuðu 2., 3. og 4. málsliðir málsgreinarinnar svo: „Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki skal vera 300.000.000 kr. á rekstrarári. Ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr. skal hámark kostnaðar samtals vera 450.000.000 kr. Ef um er að ræða samstarfsverkefni skv. 7. gr. skal sama hámark gilda fyrir verkefnið í heild en frádrætti skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.“ Kærandi taldi að orðin „skal sama hámark gilda“ í 4. málslið vísuðu til 450.000.000 kr. hámarksins. Því hafnaði yfirskattanefnd, m.a. með orðunum: „Að því leyti sem skilja má málatilbúnað kæranda og forsendur í kæruúrskurði ríkisskattstjóra svo, að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti skuli ávallt vera 450.000.000 kr. þegar um samstarfsverkefni er að ræða, óháð því hvort verkefni felur í sér aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu eða ekki, þá þykir sá skilningur ekki eiga sér neina stoð í orðalagi ákvæðisins.“

 

Athyglisvert er að yfirskattanefnd vék í rökstuðningi sínum ekki að ákvæði 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 758/2011, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem ráðherra setti með stoð í lögum nr. 152/2009. Reglugerðarákvæðið, með breytingu skv. 2. gr. reglugerðar nr. 833/2016, hljóðaði svo á árinu 2017: „Ef um er að ræða samstarfsverkefni tveggja eða fleiri ótengdra nýsköpunarfyrirtækja, skv. 7. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti fyrir verkefnið í heild vera samtals 450.000.000 kr. en frádrætti skal skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.“ Af framangreindum rökstuðningi yfirskattanefndar má ætla að nefndin hafi talið reglugerðarákvæði þetta ganga á svig við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 152/2009.