Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Skattrannsókn

Mál nr. 6335/2011. Á heimasíðu umboðsmanns er málið reifað með svofelldum hætti:

 

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir endurteknum rannsóknum skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattamálum hans. Var einkum á því byggt að meðalhófs hefði ekki verið gætt við rannsóknina. Í málinu lá fyrir að meðferð málsins hafði lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra án þess að tilefni hefði þótt til frekari aðgerða af hálfu embættisins.

 
Í málinu hafði ríkisskattstjóri óskað eftir tilteknum upplýsingum hjá A vegna notkunar hans á erlendu greiðslukorti hér á landi. A svaraði erindi ríkisskattstjóra. Að svo búnu vísaði ríkisskattstjóri máli A til skattrannsóknarstjóra. A fékk ekki tilkynningu um það. Áður en A var tilkynnt um að mál hans væri til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra vísaði embættið máli hans til lögreglu með ósk um að fram færi húsleit á heimili A og haldlagning gagna vegna rannsóknar á greiðslukortaviðskiptum hans. Lögreglan gerði húsleit á heimili A og lagði hald á tölvu í eigu hans. Lögreglan sendi málið síðan aftur til skattrannsóknarstjóra þar sem rannsókn þess væri enn á frumstigi. Athugun setts umboðsmanns Alþingis laut að því hvort ákvörðun skattrannsóknarstjóra um að vísa máli A til lögreglu, til þess að leggja hald á tiltekin gögn á lögheimili A, hefði verið í samræmi við lög.

 
Settur umboðsmaður tók fram að skattrannsóknarstjóri yrði í ljósi meðalhófsreglu að beita rannsóknarúrræðum af varfærni og gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsynlegt væri. Almennt bæri skattrannsóknarstjóra að óska fyrst eftir upplýsingum af hálfu skattaðila áður en meira íþyngjandi úrræði væri beitt eins og haldlagningu gagna og húsleit, ef tilgangur rannsóknaraðgerðar væri að afla frekari upplýsinga í málinu. Frá þessu kynni að vera undantekning ef rannsóknarhagsmunir stæðu því í vegi. Við mat á því hvort atvik væru með þeim hætti yrði að ljá skattrannsóknarstjóra ákveðið svigrúm. Ef meðalhófsreglan ætti aftur á móti að þjóna tilgangi sínum og hafa raunhæfa og efnislega þýðingu í málum af þessu tagi í þágu réttaröryggis borgaranna yrðu eftirlitsaðilar á borð við umboðsmann Alþingis og dómstóla að kanna gaumgæfilega hvort staðhæfingar skattrannsóknarstjóra um að nauðsynlegt hefði verið að beita íþyngjandi rannsóknaraðgerðum vegna rannsóknarhagsmuna væru á rökum reistar og byggðar á forsvaranlegu mati á atvikum og gögnum málsins.

 
Í ljósi gagna málsins féllst settur umboðsmaður hvorki á þær skýringar skattrannsóknarstjóra að hætta hefði verið á rannsóknarspjöllum í málinu ef fyrst hefði verið óskað eftir upplýsingunum frá A né að A hefði verið veittur fullur kostur á að leggja fram umbeðin gögn sem vörpuðu ljósi á þá sjálfstæðu rannsókn sem hafði verið afmörkuð hjá skattrannsóknarstjóra. Niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis var því sú að ákvörðun skattrannsóknarstjóra um að vísa máli A til lögreglu, svo húsleit og haldlagning gagna á heimili A gæti farið fram, hefði ekki verið í samræmi við grundvallarreglu íslensks réttar um meðalhóf og þá meginreglu sakamálaréttarfars sem lögfest væri í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 
Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til skattrannsóknarstjóra ríkisins að leitað yrði leiða til að rétta hlut A og að embættið hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.