Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Skattrannsókn - upplýsingagjöf opinbers starfsmanns

Mál nr. 8383/2015. Málið er reifað með svofelldum hætti á heimasíðu Umboðsmanns:

 

 

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að starfsmaður skattrannsóknarstjóra ríkisins hefði, þegar hann hafði samband við hana í síma og með smáskilaboðum til að óska eftir símanúmeri föður hennar og að boðum yrði komið til hans, ekki upplýst um frá hvaða stofnun hann hringdi og hvert væri tilefnið, þótt um slíkt hefði verið spurt. Athugun umboðsmanns laut að því hvort þessi samskipti hefðu verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við að starfsmaðurinn hefði haft samband við A til að kanna hvort hún hefði upplýsingar um símanúmer föður síns til þess að unnt væri að ná í hann. Hann taldi hins vegar að starfsmanninum hefði í síðasta lagi borið að gera A grein fyrir hvar hann starfaði þegar hann var inntur eftir upplýsingunum. Háttsemi starfsmannsins hefði að því leyti ekki verið í samræmi við þá skyldu opinberra starfsmanna að upplýsa við erindagjörðir sínar um hvar þeir starfa. Skyldan er leidd af eðli starfs opinberra stofnana og starfsmanna og þeirri almennu réttarumgjörð sem gildir um starfsheimildir þeirra og meðferð opinbers valds. Þeir starfshættir eru einnig í samræmi við kröfur sem leiða af vönduðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður taldi jafnframt að ef starfsmaðurinn hefði talið þörf á að upplýsa um að erindið tengdist vinnu föður A, án þess að segja frá því hjá hvaða ríkisstofnun hann starfaði, hefði borið að gera það þannig að hún gæti áttað sig á því af tilefni beiðninnar væru ekki skyndilegar aðstæður föður hennar, enda leiddi af vönduðum stjórnsýsluháttum að forðast bæri að framsetning erinda opinberra starfsmanna yllu misskilningi. Eins og málinu var háttað og þar sem fyrir lá að embætti skattrannsóknarstjóra lýsti í bréfi að það harmaði ef samskiptin hefðu valdið A hugarangri lét umboðsmaður við það sitja að mælast til þess að betur yrði gætt að þessu atriði í framtíðarstörfum skattrannsóknarstjóra.