Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Skattskyld gjöf - sala hlutabréfa

Nánar úr dómi Hæstaréttar:

"Í málinu deila aðilarnir um hvort ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að færa áfrýjanda til tekna sem skattskylda gjöf á tekjuárinu 2010 mismun á áætluðu raunvirði hluta í Furu ehf. sem foreldrar áfrýjanda seldu félaginu með samningunum 29. desember 2010 og kaupverði hlutanna sem þar var kveðið á um. Ákvörðun um þetta reisti ríkisskattstjóri sem fyrr segir á 4. tölulið A-liðar 7. gr. og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu teljast til skattskyldra tekna beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja sé ekki um að ræða fyrirframgreiðslu arfs. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að ef skattaðilar semja um skipti sín í fjármálum á hátt sem er verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum skulu verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattaðilans en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna.

 

Fyrir liggur í málinu að hlutabréf í Furu ehf. voru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði þegar foreldrar áfrýjanda seldu félaginu 29. desember 2010 alla hlutina sem þau áttu þá enn í því. Af þeim sökum var ríkisskattstjóra rétt að áætla raunvirði hlutanna út frá bókfærðu eigin fé félagsins samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þess, svo sem leiða má af 9. gr. laga nr. 90/2003. Eftir ársreikningi Furu ehf. vegna rekstrarársins 2009 var hlutafé í félaginu 6.230.000 krónur en eigið fé 921.137.126 krónur. Samkvæmt því nam raunvirði hverrar krónu af nafnverði hlutafjár í félaginu 147,85 krónum. Með samningunum 29. desember 2010 keypti Fura ehf. hluti í sjálfu sér að nafnverði samtals 1.246.000 krónur fyrir 8.495.600 krónur. Samkvæmt þessu var mismunurinn á raunvirði hlutanna og söluverði þeirra alls 175.725.600 krónur svo sem ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd lögðu til grundvallar. Þessi mismunur verður ekki skýrður að því er skattskil varðar með því að vísa til ákvæða um verðlagningu hluta foreldra áfrýjanda í fyrrnefndri 3. grein samninganna frá 28. febrúar 1995, enda var þar mælt fyrir um forkaupsrétt Furu hf. að þessum hlutum ef foreldrar áfrýjanda hygðust láta þá af hendi til einhvers annars og gegn hvaða verði þess forkaupsréttar yrði neytt, en því hefur á engu stigi verið borið við í málinu að fyrir dyrum hafi staðið slík ráðstöfun sem virkjað hefði forkaupsrétt. Á þessum grunni mátti því ríkisskattstjóri með réttu líta svo á að samningarnir frá 29. desember 2010 hafi falið í sér gjöf sem svaraði mismuninum á raunvirði hlutanna og kaupverði þeirra.

 

Seljendur hlutanna samkvæmt samningunum 29. desember 2010 voru foreldrar áfrýjanda en kaupandi var Fura ehf. Áfrýjandi var ekki aðili að þessum samningum. Að því leyti sem samningarnir fólu í sér gjöf samkvæmt áðursögðu var það kaupandinn sem naut hennar. Hvorki liggur fyrir að áfrýjandi hefði keypt þessa hluti af foreldrum sínum á sama verði ef þau hefðu ekki selt þá til Furu ehf. með samningunum 29. desember 2010 né að hann hafi á einhvern hátt eignast þessa hluti í raun, en ekki er annað komið fram en að þeir séu ennþá til og í eigu félagsins. Eftir hljóðan 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 voru þannig ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins fyrir því að flytja í skattskilum verðmæti gjafarinnar sem í samningunum fólst úr hendi viðtakanda hennar, Furu ehf., yfir á herðar áfrýjanda. Af þessum sökum verður aðalkrafa hans tekin til greina."

 

Í hlekk með fréttinni er að finna dóminn í heild sinni.