Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Skýrsla starfshóps um skatta á ökutæki og eldsneyti 2020-2025

Starfshópurinn leggur til að grunngerð skattlagningar ökutekja og eldsneytis verði breytt. Helstu lagabálkar skattlagningar ökutækja og eldsneytis, þ.e. lög um vörugjöld á ökutæki, eldsneyti o.fl., lög um bifreiðagjald og lög um olíu- og kílómetragjald, verði sameinaðir í tvo lagabálka, annars vegar lög um skattlagningu ökutækja og hins vegar lög um skattlagningu eldsneytis. Í sérstökum lagabálki verði hins vegar kveðið á um skattlagningu kolefnis, án beinnar tengingar við ökutæki eða samgöngur.

 

Ökutækjaskattur

Lagt er til að kveðið verði á um þrjá þætti skattlagningar ökutækja í nýjum lögum um ökutækjaskatt. Skiptingin yrði þannig að fjallað yrði sérstaklega um skattlagningu öflunar ökutækja, skattlagningu umráða, aðgangs eða afnota ökutækja og skattlagningu notkunar þungra ökutækja.

 

Meginmarkmið skattlagningar öflunar ökutækja er að skattlagningin stuðli að því að notkun á ökutækjum hérlendis losi sem minnst af koltvísýringi. Meginmarkmið skattlagningu umráða, aðgangs eða afnota ökutækja er ætlað að vera tvíþætt í þeim skilningi að skattlagningin feli í sér gjald fyrir afnot af íslensku samgöngukerfi og stuðli á sama tíma til samdráttar í losun koltvísýrings. Með tímanum ætti eðli skattlagningarinnar að breytast með þeim hætti að í stað þess að skattlagningin samsvari gildandi bifreiðagjaldi, miðist hún síðar meir við eðlilegt gjald fyrir aðgang eða afnot af samgöngukerfinu hér á landi. Loks er meginmarkmið skattlagningar vegna notkunar þungra ökutækja að slík ökutæki sem slíta samgöngum hvað mest, greiði eðlilegt gjald vegna niðurbrots á samgöngum hér á landi.

 

Að öðru leyti vísast til umfjöllunar á bls. 15-23 í skýrslu starfshópsins þar sem einstakir þættir ökutækjaskattsins eru sundurliðaðir með ítarlegri hætti. 

 

Eldsneytisskattur

Lagt er til að ákvæði um eldsneytisgjöld, þ.e. almennt og sérstakt bensíngjald og olíugjald, verði fært í nýja löggjöf um grunnskattlagningu eldsneytis, þar sem einungis tekjuöflunarmarkmið liggi til grundvallar skattlagningunni. Einnig er lagt til að grunnskattlagning bensíns og dísilolíu verði samsvarandi, skilgreining þeirra ökutækja sem nýta litaða olíu verði endurskoðuð þannig að ökutæki sem eru ætluð til nota utan samgöngukerfisins séu þau einu sem geti öðlast ívilnun, frá árinu 2023 verði ekki heimilt fyrir björgunarsveitir að nýta litaða olíu og að undanþága íblöndunarefna frá eldsneytissköttum verði aðeins heimil gegn því um að ræði endurnýjanlegt eldsneyti í skilningi laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

 

Kolefnisskattur

Lagt er til að ákvæði um kolefnisgjald í lögum um umhverfis- og auðlindaskatta verði fært í nýja löggjöf um kolefnisskatt þar sem stuðlað er að samdrætti losunar koltvísýrings. Þá liggur fyrir tillaga um að forsendur fjárhæða kolefnisgjalds verði endurskoðaðar á árunum 2020 og 2021, svo þær endurspegli beinan og óbeinan kostnað samfélagsins vegna neikvæðra ytri áhrifa koltvísýringslosunar. Í kjölfar þess er lagt til að fjárhæðir kolefnisgjalds ráðist af kolefnisverði frá og með árinu 2022.

 

Virðisaukaskattsívilnanir

Lagðar eru til tímabundnar virðisaukaskattsívilnanir á árunum 2020-2024. Í fyrsta lagi að gildandi virðisaukaskattsívilnun vegna innflutnings- og sölu á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum (háð ákveðnum losunarviðmiðum) verði látin gilda þann tíma sem henni hefur verið markaður, en fallið verði frá því að láta ívilnuna gilda um hópbifreiðir. Hún verði þó endurskoðuð áður en gildistíma hennar lýkur. Í öðru lagi að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna innflutnings og kaupa á almenningsvögnum, þ.e. hópbifreiðum með leyfða heildarþyngd meiri en 5.000 kg fyrir fleiri en 22 farþega í sætum og stæðum, sem ganga fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni, eða sem uppfylla ákveðin losunarviðmið. Lagt er til að heimildin verði bundin samanlögðu árlegu hámarki, 500 millj. kr., og nái til innflutnings og kaupa sem hafa átt sér stað frá og með 1. janúar 2018. Í þriðja lagi að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna innflutnings og sölu á dráttarvélum og ökutækjum sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd og ganga fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni eða sem uppfylla ákveðin losunarviðmið. Lagt er til að gildistími ívilnunarinnar verði 5 ár og niðurfellingin verði bundin samanlögðu árlegu hámarki sem nemur 200 millj. kr. Í fjórða lagi að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt af útleigu ökutækjaleiga og handhafa leyfa til að stunda eignaleigu eða fjármögnunarleigu á ökutækjum sem fallið hafa undir ívilnun skv. bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum um virðisaukaskatt.

 

Tekjuskattsívilnanir

Lagðar eru til tímabundnar tekjuskattsívilnanir á árunum 2020-2024. Í fyrsta lagi að launþegum verði heimilað að draga 50% ökutækjastyrkja og bifreiðahlunninda frá tekjum, geti þeir sýnt fram á að þau varði notkun bifreiðar sem nýtir að mestu leyti metan, metanól eða bifreið fer ekki yfir ákveðið hámark um skráða losun koltvísýrings. Í öðru lagi að atvinnurekstraraðilum verði heimilað að draga frá tekjum 200% rekstrarkostnaðar, að fyrningum frátöldum, vegna bifreiða sem nýta aðallega metan eða metanól eða bifreið fer ekki yfir ákveðið hámark um skráða losun koltvísýrings. Í þriðja lagi að atvinnurekstraraðilum verði heimilað að fyrna að fullu á kaupári bifreiðar að eigin þyngd meira en 3.500 kg. Að því gefnu að umræddar bifreiðar gangi aðallega fyrir metani, metanóli, rafmagni eða vetni eða hafi skráða losun undir ákveðnu koltvísýrings hámarki.

 

Annað

Að síðustu leggur starfshópurinn til að ráðist verði í nokkur greiningarverkefni og úttektir í því skyni að undirbyggja frekari breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem sjá má á bls. 26 í skýrslunni.

 

Í hlekk hér að ofanverðu með fréttinni má sjá frétt Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið þar sem nálgast má skýrslu starfshópsins. Jafnframt er þar hægt að nálgast upphafleg skýrsludrög starfshópsins frá 23. febrúar 2018.