Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Slhf. breytt í hf. – skattaleg áhrif

4. júlí 2018 - Bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 6/2018

 

Fyrirhugað var breyta tveimur samlagshlutafélögum E slhf. og D slhf., sem ekki báru sjálfstæða skattaðild, í hlutafélög samkvæmt heimild í 163. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Af því tilefni leituðu samlagshlutafélögin og eignendur þeirra, A ehf., B ehf. og C ehf., eftir áliti RSK og óskuðu staðfestingar hans á:

 

  1. „Að fyrirhuguð breyting á ósjálfstæðu skattaðilunum E slhf. og D slhf. í hlutafélög, sbr. 3. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sé heimil samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og að fyrirhuguð breyting hafi ekki í för með sér skattlagningu.“

  2. „Að félögunum E slhf. og D slhf. verði eftir breytingu í hlutafélög veitt samsköttun með samstæðunni.“

    Niðurstöðu sína lét RSK í té í svohljóðandi álitsorði:

 

„Samlagshlutafélögin bera ósjálfstæða skattskyldu til þess tímamarks að breyting verður á félagaformi á grundvelli heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995. Við breytingu á félagaformi álitsbeiðenda, úr samlagshlutafélögum í hlutafélög hefst sjálfstæð skattaðild hlutafélaganna. Skattaréttarleg réttindi og skyldur, þ.m.t. skattalegt tap E slhf. og D slhf., sem áður tilheyrðu eigendum, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, myndu ekki flytjast til hlutafélaganna við breytinguna.“

„Álitsbeiðendunum E slhf. og D slhf. yrði eftir breytingu í hlutafélög heimil samsköttun með móðurfélaginu A ehf. enda séu skilyrði 2. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga uppfyllt.“

 

Í rökstuðningi sínum tiltekur RSK á að samlagshlutafélög búi við þá sérstöðu að geta við skráningu valið milli sjálfstæðrar eða ósjálfstæðrar skattaðildar. Félögunum E slhf. og D slhf. hafi verið valin ósjálfstæð skattaðild. Við breytingu á formi félaganna í hlutafélög tapist það val og beri þau sem hlutafélög sjálfstæða skattaðild. Tekjur og eignir félaganna fram að formlegri yfirtöku hlutafélaganna, á rekstri, eignum og skuldum, beri að skattleggja hjá félagsaðilum, þ.m.t. vegna tímabilsins frá upphafi yfirstandandi rekstrarárs og fram að yfirtöku.

 

Í rökstuðningi tiltekur RSK að umrædd breyting á skattaðild leiði til uppskiptingar á skattalegum réttindum og skyldum, „þannig að t.a.m. yfirfæranlegt tap tilheyrir þeim skattaréttarlegu skyldum og réttindum samlagshlutafélaganna, sem skipt var upp á eigendur til skattlagningar og flyst því ekki yfir til hlutafélaganna með sama hætti og yrði með bókfærðar eignir félagsins“.  

 

Af þessum orðum RSK má ráða að hann telur skattinneign/skattskuldbindingu vegna rekstrar samlagshlutafélaga ekki vera eign/skuldbindingu félaganna sjálfra heldur eign/skuldbindingu eigenda þeirra, enda sæti eigendurnir skattlagningu af rekstri félaganna vegna ósjálfstæðrar skattaðildar þeirra.