Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Starfssamband - vinnusamningur - verksamningur

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 151/2017: 

Eins og fram er komið hefur sérstaka þýðingu varðandi mat á starfssambandi hvernig farið er endurgjaldi, fjárhæð þess og greiðslufyrirkomulagi. Hvað þetta varðar liggur fyrir að um var að ræða fastar, mánaðarlegar greiðslur X ehf. til R ehf. þau ár sem um ræðir vegna hinna umdeildu starfa kæranda. Eins og rakið er að framan námu greiðslurnar 545.900 kr. á mánuði árið 2013 og 577.700 kr. á mánuði árið 2014 auk virðisaukaskatts sem tóku mið af 53 klst. vinnu á mánuði við „sölu- og markaðsráðgjöf“. Verður ekki séð að greiðslur þessar hafi að neinu leyti verið tengdar árangri eða afköstum að neinu leyti, enda hefur kærandi ekki gert neina grein fyrir ákvörðun greiðslna á slíkum grundvelli. Þvert á móti er komið fram að samið hafi verið um greiðslufyrirkomulag og fjárhæðir í upphafi hvers árs. Verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að viðmiðun endurgjalds vegna umræddra starfa, greiðsla þess og uppgjör beri rík einkenni vinnusamnings.

 

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, er ljóst að mörg þau atriði, sem almennt eru höfð til viðmiðunar við mat á því hvort um verk- eða vinnusamning er að ræða, þar á meðal þau atriði sem mest vægi hafa í þessum efnum, benda til vinnusamnings í þessu tilfelli. Miðað við þá lýsingu sem fram hefur komið á umsömdum verkefnum fyrir X ehf., sbr. hér að framan, þykir sú staðreynd að kærandi var á greindum árum launþegi hjá félaginu jafnframt styrkja þá niðurstöðu að hinar umdeildu greiðslur þess til R ehf. hafi í reynd grundvallast á vinnusamningi við kæranda en ekki verksamningi milli einkahlutafélaganna. Er því fallist á þá ályktun ríkisskattstjóra að virða beri umrætt samningssamband sem vinnusamning en ekki verksamning. Af niðurstöðu um samningssambandið leiðir jafnframt að það telst hafa verið milli kæranda sjálfs og X ehf. svo sem ríkisskattstjóri hefur talið, sbr. og úrskurðaframkvæmd í málum af hliðstæðum toga. Fyrrgreindar greiðslur teljast samkvæmt þessu tilheyra kæranda en ekki einkahlutafélagi hans, R ehf. Samkvæmt framansögðu er aðalkröfu kæranda í málinu hafnað.