Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Stimpilgjald - hlutaskipting félags

 

Nánar um úrskurð yfirskattanefndar nr. 42/2018:

Málavextir voru þeir að einkahlutafélaginu B ehf. var skipt með þeim hætti að A ehf. (kærandi í málinu) yfirtók hluta af eignum B ehf., nánar tilekið tvær fasteignir. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ákvarðaði A ehf. stimpilgjald til greiðslu við þinglýsingu skjals er laut að afsali fasteignanna til A ehf. frá B ehf.

 

Þeirri ákvörðun vildi A ehf. ekki una og kærði hana til yfirskattanefndar. Í kæru vísaði A ehf. til ákvæðis 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Í fyrri málslið þess ákvæðis er kveðið á um stimpilgjaldsskyldu af skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi. Í síðari málslið þess ákvæðis er á hinn bóginn kveðið á um að fyrri málsliðurinn eigi ekki við þegar nafnbreyting verður á eiganda fasteignar í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar.

 

Í umsögn sinni til yfirskattanefndar í tilefni af kærunni tiltók sýslumaður það mat sitt að eignayfirfærslan félli ekki undir framangreint undanþáguákvæði. Vísaði hann til þess að í athugasemdum með frumvarpi kæmi hvergi fram að undir undanþáguna félli eignatilfærsla þegar hluti eigna væri færður yfir í annað félag, þótt slíkt væri heimilt samkvæmt tilteknum ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Taldi sýslumaður að með skiptingu félaga í stimpilgjaldslögum væri átt við að allar eignir félags kæmu til skipta eða að stofnað væri sérstaklega nýtt félag sem tæki við ákveðnum eignum.

 

Yfirskattanefnd benti á að umrætt undanþáguákvæði hafi verið tekið upp í lög um stimpilgjald með 38. gr. laga nr. 125/2015. Hvorki í lagaákvæðinu sjálfu, né í lögskýringargögnum með því, væri gerður greinarmunur á hlutaskiptingu af umræddum toga og fullri skiptingu, þ.e. skiptingu þar sem fleiri en eitt félag tækju við öllum eignum og skuldum hins skipta félags. Þá taldi yfirskattanefnd að sú lagatúlkun, að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, eigi almennt við um lögmæta skiptingu félaga, væri frekast í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 306/2004. Féllst yfirskattanefnd á það með kæranda að afsal vegna umræddra fasteigna væri undanþegið gjaldskyldu til stimpilgjalds.