Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Stjórnarlaun - tekjur af kauprétti á hlutabréfum

Úr héraðsdómi nr. E-5148/2014:

 

Ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri ríkisins eru hliðsett stjórnvöld þar sem ríkisskattstjóri fer með skatteftirlit sem eftir atvikum lýkur með endurákvörðun opinberra gjalda, en skattrannsóknarstjóri með rannsókn skattsvika og annarra skattalagabrota og tekur síðan ákvörðun um refsimeðferð í kjölfar rannsóknar. Óumdeilt er að skattrannsóknarstjóri lauk rannsókn sinni á skattskilum stefnanda án þess að til refsingar kæmi. Hvorki rannsóknin sem slík né sú ákvörðun embættisins að ljúka henni án refsimeðferðar hefur áhrif á heimildir ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á opinberum gjöldum stefnanda. Verður ekki talið að endurákvörðun ríkisskattstjóra á skattskilum stefnanda og þar með talin álagsbeiting ríkisskattstjóra sem staðfest var með úrskurði yfirskattanefndar hafi farið í bága við ákvæði um bann við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi vegna sama atviks samkvæmt 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að málsmeðferð skattyfirvalda í máli stefnanda hafi brotið í bága við greind ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

 

[...]

 

Samkvæmt 5. málsl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög skal formaður félagsstjórnar ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig. Stjórnarformaður er eins konar oddviti stjórnarinnar og segja má að hann hafi sérstöku hlutverki að gegna við eftirlit félagsstjórnar með starfsemi félagsins og framkvæmdastjórnar þess. Í þessu ljósi ber að skýra umrætt ákvæði þannig að þau einstöku verkefni sem félagsstjórnin felur honum að vinna skuli fremur lúta að stefnumótun félagsins og hugsanlegum undirbúningi að veigamiklum samningum eða breytingum á félagsstarfseminni, heldur en að daglegum rekstri. Þau störf sem stefnandi tók að sér að inna af hendi samkvæmt ráðningarsamningum hans við Kaupþing ber að skýra með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði laga um hlutafélög. Í samningi stefnanda við Kaupþing vegna starfa stefnanda sem „starfandi stjórnarformanns‟ er gert ráð fyrir að samið sé við stefnanda um sérstök verkefni sem falli utan starfslýsingar stjórnarformanns og að með samningnum taki stefnandi að sér að vera starfandi stjórnarformaður Kaupþings. Sé helsta verkefnið að samræma störf hinna ýmsu alþjóðlegu útibúa og dótturfyrirtækja störfum bankans, gegna starfi stjórnarformanns systurfélaga og dótturfélaga, leita tækifæra til að þróa starfsemi bankans o.fl. Í ljósi þessa og með vísan til 5. málsl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er það niðurstaða dómsins að umrædd verkefni sem stefnanda voru falin samkvæmt ráðningarsamningi hans við Kaupþing banka skuli teljast til stjórnarstarfa stefnanda til viðbótar við þau almennu störf stjórnarformanns sem hann hafði áður tekið að sér. Af því leiðir að greiðslur til stefnanda og þar með talin hlunnindi þau sem honum voru veitt með kauprétti á hlutabréfum í bankanum teljast sem hluti af greiðslum til stefnanda fyrir stjórnarsetu hans í bankanum. Samkvæmt 16. gr. í tvísköttunarsamningi á milli Íslands og Bretlands má skattleggja stjórnarlaun og aðrar svipaðar greiðslur, sem aðili, heimilisfastur í aðildarríki, fær fyrir setu í stjórn í félagi sem heimilisfast er í hinu aðildarríkinu, í síðarnefnda ríkinu. Þetta þýðir að stjórnarlaun og svipað endurgjald má skattleggja í því ríki þar sem félag sem greiðir launin er heimilisfast. Samkvæmt þessu á heimaland félags skattlagningarréttinn og skiptir ekki máli í því sambandi hvort hluti vinnunnar hafi verið inntur af hendi í heimalandi stjórnarmannsins. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að kaupréttur stefnanda hafi verið hluti af kjörum hans sem stjórnarmanns í Kaupþingi banka. Með vísan til 16. gr. tvísköttunarsamnings á milli Íslands og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og 3. gr. laga nr. 90/2003 er það því niðurstaða dómsins að tekjur stefnanda vegna kaupréttar hans á hlutabréfum í Kaupþingi hf. séu skattskyldar á Íslandi.