Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Takmörkuð skattskylda - tvísköttunarsamningar

Úr úrskurði yfirskattanefndar nr. 107/2017:

Eins og fram er komið eru þær sérstöku aðstæður uppi í máli þessu að kærandi er heimilisfastur í einu ríki, Svíþjóð, starfar fyrir félag í öðru ríki, Íslandi, og innir störfin af hendi í þriðja ríkinu, Bandaríkjunum. Þegar þessar aðstæður eru virtar og ákvarðanir og ráðstafanir umræddra ríkja í tilviki kæranda og hafður er í huga tilgangurinn með tvísköttunarsamningum, verður ekki betur séð en tilefni hafi verið fyrir bær stjórnvöld að gæta að ákvæðum viðkomandi tvísköttunarsamninga um framkvæmd gagnkvæms samkomulags, sbr. 28. gr. fyrrgreinds tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna og 24. gr. tvísköttunarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Þar er gert ráð fyrir að skattaðili geti borið sig upp undan ráðstöfunum er varði skattlagningu á hann vegna ákvarðana er ekki séu í samræmi við ákvæði viðkomandi samnings og skyldu bærra stjórnvalda til að bregðast við. Ekki verður séð að neitt slíkt ráðslag hafi farið fram þrátt fyrir tilefni.

 

[...]

 

Í ljósi viðhorfa kæranda, sem byggir m.a. á því að framangreind undantekning frá skattlagningu, sem felist í verklagsreglum ríkisskattstjóra og tilvitnuðum úrskurði, eigi við í tilviki hans, verður að telja úrslitaatriði fyrir niðurstöðu málsins að tryggilega sé leitt í ljós hvort og þá að hvaða marki launagreiðandi kæranda, G ehf., hafi rekið starfsemi í Bandaríkjunum og þá hvaða verkefnum kærandi hafi gegnt í því sambandi. Um þetta kom ekkert fram við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra og verður ekki að öðru leyti glöggt ráðið af gögnum málsins. Tekið skal fram að í gögnum, sem fylgdu kæru til yfirskattanefndar, sbr. sérstaklega bréf C Ltd. og G ehf. til ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Stokkhólmi í Svíþjóð, sem bæði eru dagsett 2. maí 2016, kemur fram að kærandi var ráðinn til G ehf. til að vinna sérfræðistörf fyrir C Ltd. og dótturfyrirtæki þess félags. Síðastgreint félag er móðurfélag G ehf. eftir því sem fram kemur í málsgögnum. Í fyrrgreindum gögnum kemur ennfremur fram að ætlunin hafi verið að kærandi yrði starfsmaður G ehf., yrði þar á launaskrá og þægi engin laun frá bandarískum launagreiðanda þrátt fyrir störf hans þar í landi við markaðsrannsóknir og tækniþróun fyrir C Ltd. í Bandaríkjunum. Félag þetta, sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, rekur tiltekna starfsemi þar í landi eftir því sem upplýst er á heimasíðu G ehf. Samkvæmt skattákvörðunum sænskra skattyfirvalda í tilviki kæranda, sbr. boðunarbréf þeirra frá 29. desember 2015 og úrskurð frá 18. janúar 2016, liggur fyrir að skattyfirvöldin telja kæranda heimilisfastan í Svíþjóð árið 2014 og bera þar ótakmarkaða skattskyldu. Þá er fjallað í gögnum þessum um skattálagningu á kæranda vegna tekjuársins 2014 og skattskyldar tekjur á árinu 2014 annars vegar frá „C“ vegna vinnu í Bandaríkjunum tímabilið maí til desember 2014 með mánaðarlaunum að fjárhæð 15.000 bandaríkjadalir og hins vegar vegna vinnu í Bandaríkjunum fyrir sænska fyrirtækið M. Þá kemur fram í hinum sænsku gögnum að kærandi hafi sætt skattlagningu í Bandaríkjunum vegna beggja tekjupóstanna og sýnt fram á að hann hafi staðið skil á hinum bandarísku sköttum. Ennfremur segir að af niðurstöðu um heimilisfesti leiði að tekjur, sem aflað hafi verið í Bandaríkjunum, komi til skattlagningar í Svíþjóð, en skattgreiðslur í Bandaríkjunum komi til frádráttar. Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júní 2016, er vikið að umræddum gögnum sænskra skattyfirvalda og fyrrnefndum launagreiðendum. Tekið er fram að í hinni sænsku ákvörðun sé ekkert minnst á að laun frá íslenska launagreiðandanum G ehf. hafi komið til skattlagningar í Svíþjóð, heldur aðeins talað um „tekjur frá sænska launagreiðandanum M og bandaríska launagreiðandanum C“. Hefur þetta verið veigamikil forsenda fyrir ályktunum og ákvörðunum ríkisskattstjóra í málinu. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 2. september 2016, er af hálfu kæranda á það bent að þarna gæti mikils misskilnings, enda sé þarna átt við G ehf. Fallast verður á þetta með kæranda og þykir raunar blasa við. Þar með brestur sú forsenda ríkisskattstjóra að hinar umdeildu tekjur hafi ekki sætt skattlagningu í Bandaríkjunum. Í hinum sænsku gögnum er vísað til tvísköttunarsamnings milli Svíþjóðar og Bandaríkjanna í tengslum við skattskyldu og skattlagningu teknanna í Svíþjóð á grundvelli ótakmarkaðrar skattskyldu kæranda þar í landi á umræddum tíma að teknu tilliti til hinna bandarísku skattgreiðslna. Lögsaga yfir síðastgreindu réttarsambandi er ekki til staðar í máli þessu. Meginforsenda ríkisskattstjóra fyrir hinni umdeildu skattlagningu hefur verið sú að af hálfu kæranda hafi ekki verið sýnt fram á að umræddar launatekjur hans frá G ehf. tekjuárið 2014 hafi sætt skattlagningu, hvorki í Bandaríkjunum né Svíþjóð. Eins og fram er komið stenst þessi ályktun ríkisskattstjóra ekki.

 

Í málinu hefur verið vikið að verklagsreglum ríkisskattstjóra samkvæmt Handbók embættisins um tekjuskatt og eignarskatt frá mars 1996, kafla 1.3.2, sem lýtur að túlkun á 2. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú hliðstætt ákvæði í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, og tilgreindum úrskurðum yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar sem varða það málefni, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 91/2007 og úrskurð ríkisskattanefndar nr. 189/1986. Í umræddum verklagsreglum í kafla 1.3.2 segir varðandi 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1981 að samkvæmt ákvæðum töluliðarins séu allir þeir menn, sem njóti launa fyrir störf frá íslenskum aðilum, skattskyldir af þeim launum sé uppruni teknanna tengdur starfsemi hér á landi. Þetta eigi jafnt við um alla menn, sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, hvort heldur þeir eru af erlendu bergi brotnir eða Íslendingar. Þá segir í verklagsreglum þessum að laun starfsmanns, sem ekki er heimilisfastur hér á landi, en starfi hjá íslenskum aðila erlendis við starfsemi, sem þar er rekin, teljist ekki til skattskyldra tekna hér á landi. Síðastgreind regla er orðuð í margnefndum úrskurði yfirskattanefndar nr. 91/2007, sbr. einnig úrskurð yfirskattanefndar nr. 145/2014. Í fyrstnefnda úrskurðinum segir að í skatt- og úrskurðaframkvæmd hafi verið litið svo á að ákvæði 2. tölul. 3. gr. taki til tekna af þeim toga sem ákvæðið sjálft tilgreini, þ.m.t. launa, sem upprunnar eru hér á landi. Hafi því verið talið að laun fyrir störf erlendis í þágu íslensks aðila, vegna starfsemi aðilans, sem þar er rekin, falli utan gildissviðs ákvæðisins þar sem uppruni teknanna sé þá erlendis en ekki hér á landi. Síðan er vikið að greindum verklagsreglum og úrskurðum. Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júní 2016, fær fyrrgreindur þáttur málsins þá einu afgreiðslu og rökstuðning að hvorki umræddar verklagsreglur né tilvísaðir úrskurðir skiptu hér máli. Samkvæmt þessu verður að telja að umtalsvert skorti að þessu leyti á fullnægjandi rökstuðning af hálfu ríkisskattstjóra, sbr. áskilnað 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 um skyldu til rökstuðnings og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings. Þá verður að telja að verulega skorti á að ríkisskattstjóri hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðal annars liggur ekki ljóst fyrir hvernig starfi kæranda var háttað í Bandaríkjunum og launagreiðslum hans vegna starfa þar. Eins og fyrr segir var brýnt að afla upplýsinga launagreiðanda kæranda, G ehf., hvað þetta varðar. Einnig þykja forsendur ríkisskattstjóra ekki standast í veigamiklum atriðum, svo sem fram er komið. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, þykir verða að ómerkja kæruúrskurð ríkisskattstjóra. Er því beint til ríkisskattstjóra að taka málið til nýrrar meðferðar og uppkvaðningar kæruúrskurðar að nýju í samræmi við það sem að framan greinir og að gættum þeim atriðum sem þýðingu hafa fyrir úrlausnarefnið og fyrr er lýst.