Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Þingmálaskrá 149. löggjafarþings (2018 - 2019) - yfirlit yfir helstu mál

Í október hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki (skattívilnanir vegna hlutabréfakaupa, skattfrá­drátt­ur nýsköpunarfyrirtækja).

Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum um hlutabréfaafslátt einstaklinga á móti tekjuskatti og einnig breytingar á frádrætti fyrirtækja í nýsköpun og þróun frá álögðum tekjuskatti. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu þessa frumvarps en KPMG hefur aðstoðað fjölda nýsköpunarfyrirtækja.

 

Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (upplýsingagjöf ferðamanna, VRA vottun og rafræn tollafgreiðsla). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 27. gr. og 162. gr. tollalaga með það fyrir augum að bregðast við athugasemdum FATF á skilyrðum VRA vottunar og á gjaldtökuákvæðum tollalaga vegna rafrænnar tollafgreiðslu.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (fyrirkomulag inn­heimtu). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi innheimtu opinberra gjalda með hlið­sjón af tillögum nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opin­berra gjalda. Nefndin, sem skipuð var 21. ágúst sl., hefur tvö verkefni. Annars vegar að fjalla um verkaskiptingu, faglegt samstarf og sameiginleg verkefni milli stofnana ráðuneytisins við skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda og hins vegar að taka til athugunar hvaða önnur verkefni kunni að tengjast kjarnaverkefnum sömu stofnana. Athugun nefndarinnar snýr jafnframt að því hvernig megi sníða skattamál stofnana ráðuneytisins betur að málaflokknum og ber í því sambandi að nefna tillögur um fyrirkomulag innheimtumála í víðara samhengi. Nefndinni er einnig gert að meta hvort breytingar séu æskilegar fyrir stofnanirnar t.d. með tilliti til nýtingu sjálfvirknivæðingar, gervigreindar o.fl. innan skattkerfisins.

 

Í nóvember nk. hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda (CFC-ákvæði, samsköttun, takmörkun á frádrætti vaxta­gjalda, endanlegt tap, útleiga vinnuafls). Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, m.a. vegna skattlagningar eignarhalds á lágskattasvæðum auk athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna samsköttunar félaga og heimildar til frádráttar endanlegs taps frá tekjum af atvinnurekstri. Þá er í frumvarpinu að finna tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur vegna brottfalls b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt þann 1. janúar 2019, sbr. nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 110 – 3. mál. Þá eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlag starfsmanna erlendra aðila hér á landi en þörf er á að útvíkka og skilgreina enn frekar ábyrgð innlendra aðila á skattskilum starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 1149 – 561. mál.

 

Á samráðsvefnum island.is skilaði KPMG umsögn um drög af frumvarpi er áætlað er að leggja fram til meðferðar í nóvember nk. Umsögn KPMG varðaði m.a. samsköttun, skjölunarskyldu, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda og CFC reglur.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (gildisdagsetn­ing­ar, virðisaukaskattskylda alþjóðaflugvalla o.fl.).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á gildisdagsetningum í virðisaukaskatti í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 1. júní 2018. Þá verða einnig lagðar til breyt­ingar í tengslum við virðisaukaskattskyldu alþjóðaflugvalla o.fl.

 

KPMG skilaði umsögn við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um gildisdagsetningar í virðisaukaskatti inn á samráðsvefnum island.is þann 3. ágúst sl. KPMG fagnar því að gildisdagsetningar í virðisaukaskatti séu til skoðunar hjá ríkisstjórninni og telur mikilvægt að bæta skattframkvæmdina hvað þetta málefni varðar. Verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa mála og hvort tekið verði tillit til umsagnar KPMG við gerð frumvarpsins. 

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (eiginfjár­aukar).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum um eiginfjárauka sem kveðið er á um í X. kafla laganna (86. gr. a – 86. gr. f). Með frumvarpinu verður lagður til nýr eiginfjárauki, þ.e. eigin­fjárauki vegna alþjóðlegra mikilvægra fjármálafyrirtækja. Jafnframt verður lagt til að Fjármála­eftirlitið birti stjórnvaldsfyrirmæli um gildi eiginfjárauka á grundvelli 86. gr. b – 86. gr. e í stað þess að teknar séu stjórnvaldsákvarðanir um þá. Einnig verða lagðar til nokkrar breytingar á 86. gr. a – 86. gr. f laganna til viðbótar þannig að ákvæði um eiginfjárauka séu í fullu samræmi við efni 129.–142. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Innleiðing.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármála­fyrirtæki (skatthlutfall).
Með frumvarpinu verður skatthlutfall bankaskatts lækkað í fjórum áföngum, úr 0,376% í 0,145%, á árunum 2020–2023.

 

Í janúar 2019 hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

 

Frumvarp til laga um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar.
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 (Regulation on improving securities settlement in the European Union and on central securities depositories, CSDR) sem er ætlað að bæta verðbréfauppgjör á EES-svæðinu og samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi verðbréfamiðstöðva sem reka verðbréfauppgjörskerfi. Frumvarpið mun enn fremur fela í sér nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignar­skrán­ingu verðbréfa. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing.

 

Frumvarp til laga um milligjöld.
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 751/2015 um milligjöld vegna kortatengdra greiðslna (Regulation on interchange fees for card-based payment transactions, IFR). Í frumvarpinu verður kveðið á um hámark milligjalda vegna notkunar debit- og kreditkorta og er því ætlað að auka gagnsæi og samkeppni á korta­markaði. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing.

 

Frumvarp til laga um meðferð ríkisaðstoðarmála.
Frumvarpið felur í sér innleiðingu breytinga á samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlits­stofnunar og dómstól er varða valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Hliðstæðar breytingar, að því er varðar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB, tóku gildi innan ESB árið 2013. Með frumvarpinu verða lagðar til heimildir um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Jafnframt mun frumvarpið hafa að geyma ákvæði sem nú er að finna í samkeppnislögum, um málsmeðferð ríkisaðstoðarmála. Innleiðing. 

 

Í febrúar 2019 hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum (endurskoðun).
Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um bindandi álit í skattamálum.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs (færslu­gjöld).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs í því skyni að heimila ríkissjóði innheimtu færslugjalda vegna greiðslna með greiðslukorti.

 

Frumvarp til laga um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja.
Frumvarpið, sem felur í sér heildarlög, er innleiðing á síðari hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB (Bank Recovery and Resolution Directive, BRRD). Með frumvarpinu verður kveðið á um reglur sem varða undirbúning og framkvæmd skilameðferðar og önnur atriði sem tengjast endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu verður kveðið á um ný stjórnvöld eða stjórnsýslueiningar, skilavald og skilasjóð, sem ætlað er að fara með opinbera stjórnsýslu við skilameðferð og fjármögnun skilameðferðar. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Innleiðing.

 

Í mars 2019 hyggst Fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi m.a. eftirfarandi frumvörp:

 

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis (ökutæki og eldsneyti).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 2018.

 

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (rekstrarumhverfi fjölmiðla, skattlagning tekna af höfundarréttindum).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á rekstrarumhverfi fjölmiðla í samræmi við tillögur nefndar á vegum menntamálaráðuneytisins um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla frá árinu 2018. Þá er í frumvarpinu gerður greinarmunur í skattalegu tilliti á höfundarlaunum annars vegar og tekjum af höfundaréttindum hins vegar þar sem lagt verður til að hvers konar endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir afnot af hugverki, að undanskildum höfundarlaunum, teljist til fjár­magnstekna.

 

Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (gjafafríðindi, persónu­upplýs­ing­ar, aðstaða til tolleftirlits, rafræn skil upplýsinga, sektargerðir, leit á mönnum, tollfríð­indi).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að endurskilgreina gjafafríðindi, treysta heimildir tollstjóra til vinnslu og meðferðar persónuupplýs­inga, tryggja aðstöðu til tolleftirlits hjá inn- og útflytjendum, undirbyggja rafræn skil á skýrslum og gögnum og rafrænar greiðslur, einfalda sektargerðir á vettvangi, endurskoða ákvæði um leit á mönnum, endurskilgreina hugtök í 6. og 7. gr. tollalaga, kveða nánar á um réttaráhrif brota gegn skilyrðum tollafríðinda, o.fl.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (bygginga­starfsemi, almenningssamgöngur o.fl.).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (samstæður, útibú, þjónustu­starfsemi og starfsemi milli landa).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á V. kafla laganna sem fjallar um starfsemi fjármála­fyrirtækja á milli landa og XIII. kafla laganna sem fjallar m.a. um eftirlit á samstæðugrunni. Frum­varpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjár­málafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Með frumvarpinu verða lagðar til breyt­ingar á lagareglum um starfsemi og eftirlit með útibúum og þjónustustarfsemi fjármála­fyrirtækja á EES-svæðinu, starfsemi og eftirlit með útibúum fjármálafyrirtækja utan EES-svæðisins hér á landi, eftirlit á samstæðugrunni, samstarf og upplýsingaskipti eftirlitsaðila. Innleiðing.

 

Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (Alternative Investment Fund Managers Directive, AIFMD). Um er að ræða heildarlög og frumvarpið hefur meðal annars að geyma ákvæði um starfsleyfi sérhæfðra sjóða, vörsluaðila og skipulags- og gagnsæiskröfur. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 30. september 2016, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2016. Innleiðing.

 

Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu.
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 (Pay­ment Services Directive, PSD) um greiðsluþjónustu á innri markaðnum og kallar á endurskoðun laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt tilskipuninni verða bankar að opna fyrir aðgengi nýrra greiðsluþjónustuveitenda að bankaupplýsingum neytenda með samþykki þeirra. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Innleiðing.

 

Síðustu ár hafa breytingarnar sem hin nýja tilskipun um greiðsluþjónustu, oft nefnd PSD2, verið mikið til umræðu. Til dæmis um umræðuna má nefna að í júní 2018 gaf Seðlabanki Íslands út skýrslu á vefsíðu sinni sem nefnist Fjármálainnviðir. Snertir Seðlabankinn á því hverjar helstu breytingarnar verði á fjármálamarkaði með innleiðingu PSD2. Í kjölfar innleiðingarinnar er gert ráð fyrir því að framboð og notkun nýrra greiðslulausna muni aukast hér á landi og að þjónustan verði jafnframt veitt af aðilum sem ekki stunda hina hefðbundnu bankastarfsemi. Ýmis lagaleg álitaefni hafa komið upp í umræðuna hvað varðar PSD2 og ber þar helst að nefna samband hennar við GDPR, persónuverndarreglugerð ESB. Þar sem um mikla breytingu á greiðsluþjónustu er að ræða munu vafalaust verða ýmis lagaleg álitaefni sem vakna við innleiðinguna og þegar lögin hafa tekið gildi. Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls.

 

Frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
Með frumvarpinu, sem felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II/MiFIR), er lagt til að sett verði ný heildarlög um markaði fyrir fjármálagerninga. Um nokkuð umfangsmikla breytingu er að ræða á gildandi rétti sem kallar á breytingar á m.a. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir. Innleiðing.

 

Innleiðing á ofangreindri tilskipun hefur, líkt og PSD2 tilskipunin, hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi síðustu misseri. MiFID II tilskipunin hefur í raun för með sér uppfærslu á MiFID I tilskipuninni sem innleidd var í íslenskan rétt árið 2007 og hafði það að markmiði að samræma regluverk og umgjörð innan evrópskra fjármálamarkaði ásamt því að auka vernd fjárfesta. Breytingarnar sem MiFID II mun hafa í för með sér eru að auka skilvirkni og gagnsæi fjármálamarkaða og skapa fjárfestavernd.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á núverandi lögum um verðbréfasjóði, vegna innleið­ingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB (UCITS V). Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 9. febrúar 2018, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018. Innleiðing.

 

Nálgast má þingmálaskránna í heild sinni í hlekk að ofanverðu með fréttinni.