Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Um tvöfalda refsimeðferð vegna skattalagabrota

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur nýverið kveðið upp dóma í þremur málum, nú síðast þann 10. febrúar sl., er varða það álitaefni hvort fyrirkomulag skattamála í Finnlandi samræmist Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um bann við tvöfaldri refsimeðferð vegna sama brots (ne bis idem). Niðurstaða dómstólsins var sú að svo hafi ekki verið og var finnska ríkinu gert að greiða skaðabætur.

 

Í fjölmörgum dómsmálum hefur það sjónarmið verið fært fram að íslenska fyrirkomulagið samræmist ekki sáttmálanum, sem innleiddur hefur verið í íslensk lög, án þess þó að Hæstiréttur hafi fallist á það. Þess er þó að vænta að úr álitaefninu verði leyst innan tíðar þegar niðurstaða liggur fyrir í máli íslensks aðila sem nú bíður úrlausnar MDE. Þar til dómur fæst í málinu er athyglisvert að skoða hvort þessir nýju dómar MDE varpi einhverju ljósi á álitaefnið og gefi vísbendingu um væntanlega niðurstöðu.

 

Fyrirkomulag refsimála vegna skattalagabrota á Íslandi er með þeim hætti að sérstök skattrannsókn fer fram og að henni lokinni er mál aðskilið í tvo hluta sem sæta sitt hvorri málsmeðferðinni. Annars vegar skattaþátt máls sem snýr að leiðréttingu skattskila, sem sendur er ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar um opinber gjöld auk 25% álags á vantalda skattstofna. Hins vegar refsiþátt máls, sem ýmist er sektarmeðferð fyrir stjórnvaldi eða opinber lögreglurannsókn og sakamál fyrir dómi, sem leitt getur til fangelsisrefsingar auk sekta.

 

Samkvæmt dómaframkvæmd MDE eru fjögur skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo um tvöfalda refsimeðferð sé um að ræða; 1) að báðar málsmeðferðirnar teljist refsimeðferðir, þ.e. að mönnum sé gerð „refsing“ í skilningi sáttmálans, 2) að refsingarnar séu vegna „sama brots“, 3) að endanleg ákvörðun liggi fyrir og 4) að málsmeðferð teljist hafa verið endurtekin.

 

Eins og fyrr segir hefur á það reynt í nokkrum málum fyrir íslenskum dómstólum hvort íslenska fyrirkomulagið sé andstætt sáttmálanum. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 371/2010, uppkveðinn þann 22. september 2010, vegur þar þyngst en síðari dómar hafa vísað til fordæmisgildis hans. Í málinu hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska fyrirkomulagið bryti gegn sáttmálanum en Hæstiréttur snéri hins vegar þeirri niðurstöðu. Það sem réði úrslitum var mat Hæstaréttar á skilyrðinu um hvort refsingarnar teldust vera vegna „sama brots“. Um það sagði Hæstiréttur að MDE hefði í eldri málum hafnað því að um sama brot væri að ræða þegar fjallað væri annars vegar um endurákvörðun skatta og beitingu álags og hins vegar um refsingar í öðru máli í tilefni af sömu málsatvikum. Af hálfu skattaðilans var því haldið fram að túlkun á þessu skilyrði hefði breyst með dómi MDE í máli Zolotukhin gegn Rússlandi sem nýverið hafði þá verið kveðinn upp. Um mál Zolotukhin og þá dóma sem eftir komu, þar sem hinni breyttu túlkun hafði verið beitt, sagði Hæstiréttur að ekkert þeirra mála lyti að beitingu álags og ákvörðun refsingar vegna brota á skattalögum. Hæstiréttur taldi því engin skýr fordæmi MDE fyrir því að beita skyldi þeirri túlkun í skattamálum.

 

Þeir dómar MDE sem fallið hafa nýverið snúa allir að meðferð skattalagabrota í Finnlandi en segja má að það sé í megindráttum eins og það íslenska sem lýst var hér að ofan. Við mat á því hvort álagsbeiting í skattaþætti máls og refsing í refsiþætti máls sé vegna „sama brots“ er ljóst af nýföllnum dómum MDE að þeirri túlkun sem beitt var í máli Zolotukhin er fullum fetum beitt í skattamálum. Af hálfu finnska ríkisins fyrir MDE var raunar tekið fram að það væri augljóst að báðar málsmeðferðirnar væru vegna „sama brots“.

 

Áhugavert verður að sjá hver niðurstaða MDE verður í máli íslenska skattaðilans, en segja má að nýfallnir dómar MDE veiti sterka vísbendingu um að meginforsendan sem Hæstiréttur byggði niðurstöðu sína á í tilvitnuðu máli, og hefur vísað til í síðari málum, muni ekki halda gagnvart MDE. Þó er ekki hægt að fullyrða að önnur skilyrði, sem nefnd eru hér að ofan, verði talin vera fyrir hendi þannig að um brot á sáttmálanum sé að ræða.

 

Ef niðurstaðan verður sú að skipan skattrannsóknarmála á Íslandi standist ekki sáttmálann, eiga þeir menn sem sætt hafa endurtekinni refsimeðferð líklega kröfu um skaðabætur. Í því sambandi er til þess að líta að skattaþætti máls lýkur í flestum tilfellum á undan refsiþætti þess. Það væri því síðarnefnda málsmeðferðin sem fæli í sér brot gegn sáttmálanum og menn ættu rétt á bótum fyrir. Sá þáttur máls felur yfirleitt í sér háar sektir og oft á tíðum fangelsisrefsingu. Ekki ætti að skipta máli þótt rannsókn hefði ekki leitt til útgáfu ákæru eða að sýknað hefði verið í málinu, því skýrt er af dómaframkvæmd MDE að brotið gegn sáttmálanum felst í því að málsmeðferð haldi áfram, eftir að hinni fyrri málsmeðferð lýkur.

 

Það gæti því farið á þann veg að þeir menn sem sætt hafa lögreglurannsókn vegna skattalagabrota eigi rétt á bótum auk þess sem þeir sem sakfelldir hafa verið þurfi á endanum aðeins að sæta refsingu í formi 25% álags á vantalinn skattstofn, án vaxta eða dráttarvaxta. Í lokin er rétt að geta þess að reglunum í Finnlandi var breytt áður en dómar MDE féllu, þar sem ljóst þótti að skipanin væri ekki í samræmi við sáttmálann. Samkvæmt núgildandi lögum í Finnlandi geta skattyfirvöld valið á milli þess að leggja á skattálag eða senda málið í opinbera rannsókn. Hvoru tveggja verður hins vegar ekki viðkomið í senn enda litið á álagið sem refsingu.