Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Virðisaukaskattur - ne bis in idem

Úr dómi Hæstaréttar:

 

"Sóknaraðili reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki séu forsendur til að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varnaraðila varðar, þar sem lögaðilar verði ekki felldir undir bann samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, við því að nokkur sæti lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot, sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi. Um þessa röksemd er þess að gæta að þótt ekki verði með skýrum hætti ráðið af orðalagi ákvæðisins sem hér um ræðir hvort það taki einungis til einstaklinga verður ekki annað séð af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu en að þar hafi ákvæðinu einnig verið beitt gagnvart lögaðilum, sbr. dóm hans 4. mars 2014 í málinu Grande Stevens o.fl. gegn Ítalíu. Til þess er einnig að líta að á grundvelli laga nr. 62/1994 er ákvæði þetta íslensk réttarheimild og sætir sem slíkt og óháð framangreindu skýringu sem hvert annað lagaákvæði fyrir dómstólum hér á landi. Eðli máls samkvæmt standa ekki haldbær efnisrök til að fella eftir íslenskum landsrétti lögaðila utan þeirrar verndar, sem ákvæði þessu er ætlað að veita. Að þessu virtu verður hafnað þeirri röksemd sóknaraðila, sem hér um ræðir.

 

Þá hefur sóknaraðili í annan stað stutt dómkröfu sína þeim rökum að álag á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988 feli ekki í sér refsingu í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu með sama hætti og þegar gjaldandi sætir álagi á gjaldstofna samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þótt rétt sé hjá sóknaraðila að hundraðshluti álags af gjaldstofni sé í fyrrnefnda tilvikinu nokkru lægri en í því síðarnefnda og talsverður munur sé að auki á því hvernig staðið er að ákvörðun um beitingu álags í þessum tveimur tilvikum standa engin efni til að gera greinarmun af þessu tagi, enda er í þeim báðum um að ræða viðurlög, sem taka ber tillit til við ákvörðun sektar í sakamáli, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

 

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti sóknaraðili því yfir að unað væri við þá niðurstöðu Landsréttar að rekstur máls gegn varnaraðilum fyrir skattayfirvöldum annars vegar og rannsókn sakamáls á hendur þeim og meðferð þess fyrir dómi hins vegar hafi ekki uppfyllt skilyrði um nægjanlega samþættingu í tíma til þess að slík tvíþætt málsmeðferð fengi staðist gagnvart 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Kemur sá þáttur málsins því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

 

Að framangreindu virtu verður hið kærða ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun málsins að hluta staðfest með vísan til forsendna dómsins." 

 

Í hlekk að ofanverðu með fréttinni er að finna dóm Hæstaréttar, Landsréttar og Héraðsdóms í heild sinni.