Stimpilgjald - hlutaskipting félags

Virðisaukaskattur af þjónustu vegna greiðslukorta

 

Úr ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 1096/2015:

Vísað er til erindis frá félaginu, dags. 26. janúar 2015, þar sem óskað er upplýsinga um hvort tiltekin þjónusta þess sé virðisaukaskattsskyld eða falli undir undanþáguákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Fram kemur í erindinu að meðal þeirrar þjónustu sem félagið veiti sé útleiga á posum og annarri þjónustu þeim tengdum, þ.m.t. miðlun notkunarupplýsinga. Fyrir þá þjónustu geri félagið reikning á kaupmanninn og leggi á virðisaukaskatt í efra skattþrepi virðisaukaskatts. Hinni umspurðu þjónustu, sem félagið veiti auk framangreinds, er lýst þannig í erindinu að í hvert sinn er kaupmaður noti hinn leigða posa, þ.e. taki við greiðslukorti, tengist posinn miðlægu heimildarleitarkerfi félagsins sem sendi fyrirspurn til viðkomandi færsluhirðis og það svar sem fæst aftur til posans. Í lok dags sendi kaupmaður þær færslur sem geymdar séu í posanum til félagsins sem flokkar þær og sendir áfram til viðkomandi færsluhirðis. Fyrir þessa þjónustu hafi félagið gert reikning á færsluhirða og innheimt virðisaukaskatt samkvæmt þeim reikningum. Fram kemur í erindinu að hin umspurða þjónusta sé og hafi verið veitt af öðrum aðila og hafi félagið upplýsingar um að sá aðili veiti þessa þjónustu án þess að leggja á hana virðisaukaskatt. Þar sem félagið telji ekki ljóst hvort því beri að leggja virðisaukaskatt á ofangreinda þjónustu, þ.e. heimildarleitina og sendingu á flokkuðum upplýsingum til færsluhirðanna, telji hann nauðsynlegt að óska eftir áliti ríkisskattstjóra í þessu máli.

[...]

Til skoðunar kemur hvort hin umspurða þjónusta kunni að falla undir ákvæði laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. þeirra laga kemur fram að þau taki m.a. ekki til stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu sem feli ekki í sér að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skuli, þ.m.t. úrvinnslu og geymslu gagna, þjónustu við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveitu upplýsingatækni- og samskiptanets og útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu. Eins og hinni umspurðu þjónustu félagsins er lýst í framangreindu bréfi þess virðist hún felast í milligöngu, þ.e. að flytja fyrirspurn frá leigutaka posa, kaupmanni, um t.d. hvort greiðslukort viðskiptavinar hans sé gilt eða ekki til viðkomandi færsluhirðis og að flytja svar þaðan til baka. Þjónustan virðist því ekki fela í sér að félagið taki ábyrgð á svarinu sem slíku. Að áliti ríkisskattstjóra og með vísan til framangreinds verður þessi þjónusta ekki felld undir framangreint undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. nefndra laga nr. 50/1988 heldur teljist hún til aðfanga viðskiptavina félagsins í skilningi 4. mgr. 2. gr. sömu laga og er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt almennum ákvæðum þeirra.